Nýliðið ár var afar árangursríkt í rekstri Stapa lífeyrissjóðs. Nafnávöxtun tryggingardeildar reyndist vera 18,5% sem er besti árangur sjóðsins í núverandi mynd. Góða ávöxtun sjóðsins má einna helst rekja til mikilla hækkana á innlendum og erlendum hlutabréfum. Ávöxtun af innlendum skuldabréfum var undir væntingum vegna hækkana Seðlabankans á stýrivöxtum þegar líða fór á árið til að reyna að halda aftur af verðbólgu sem jókst hröðum skrefum þegar leið á árið.
Undanfarin þrjú ára hafa verið afskaplega hagfelld hvað varðar ávöxtun eigna Stapa lífeyrissjóðs. Frá ársbyrjun 2019 til ársloka 2021 hækkaði svokölluð eignavísitala Stapa um 51%. Réttindasjóður sjóðfélaga er uppreiknaður með þessari sömu eignavísitölu og hafa óúrskurðuð réttindi því hækkað um ríflega helming á þessu tímabili. Góðri ávöxtun eigna sjóðsins er þannig miðlað beint yfir í aukin réttindi sjóðfélaga. Stapi hefur einn íslenskra lífeyrissjóða innleitt í samþykktir sínar beina tengingu milli óúrskurðaðra réttinda og ávöxtun eigna.
Á árinu 2021 endurskoðaði stjórn sjóðsins hluthafastefnu Stapa sem hafði staðið svo til óbreytt frá árinu 2015. Stefnan lýsir þeim kröfum sem sjóðurinn gerir til starfsmanna sinna í eignastýringu og þeirra fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í. Samhliða uppfærslu hluthafastefnunnar samþykkti stjórn fyrstu stefnu sjóðsins um ábyrgar fjárfestingar. Markmið hennar er að móta umgjörð fyrir aðgerðir sjóðsins á sviði umhverfis- og félagslegra málefna í og gagnvart þeim félögum sem hann fjárfestir í eða annast fjárfestingar fyrir hönd sjóðsins. Framkvæmd stefnunnar er háð því skilyrði að aðgerðir sem af henni leiða samrýmist heildarmarkmiðum sjóðsins um hámörkun lífeyrisréttinda sjóðfélaga.
Í samræmi við stefnu um ábyrgar fjárfestingar gerðist Stapi aðili að samstarfi á sviði fjárfestinga í þágu loftlagsmála, svonefnt Climate Investment Coalition. Með því að taka þátt í samstarfinu lýsir Stapi vilja sínum til að auka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Markmið Stapa er að þessar grænu fjárfestingar verði allt að því 30 ma. kr. eða sem nemur 5% af eignasafni sjóðsins árið 2030.
Á árinu markaði stjórn sjóðsins þá stefnu að hlutfall erlendra eigna í eignasafni sjóðsins verði allt að því 45% til lengri tíma. Sjóðurinn hefur unnið eftir þeirri stefnu að hækka hlutfallið jöfnum skrefum undanfarin ár og var fyrirséð að eldra markmiði sjóðsins um 40% hlutfall yrði náð í náinni framtíð. Vegna mikillar samþjöppunaráhættu á innlendum verðbréfmarkaði er hækkandi hlutfall erlendra eigna mikilvægt út frá áhættudreifingarsjónarmiði.
Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 7.913 milljónum króna og hækkuðu um 11% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 72%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 4%. Lífeyrisþegar í árslok voru 11.588 og fjölgaði um 622 frá fyrra ári.
Lífeyrisbyrði sjóðsins nam 56% á árinu. Þó svo að hrein iðgjöld sjóðsins nemi um þessar mundir um 6 mö. kr. má búast við því að lífeyrisbyrði sjóðsins hækki jöfnum skrefum á næstu árum samhliða hækkandi meðalaldri landsmanna og auknum réttindum þeirra sem fara á lífeyri. Hækkandi lífeyrisbyrði hefur áhrif á áhættuþol sjóðsins og gæti sett okkur skorður til lengri tíma litið við samsetningu eignasafnsins.
Að tillögu Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga staðfesti fjármálaráðuneytið nýjar dánar- og eftirlifendatöflur í lok ársins 2021. Nýtt spálíkan sem töflurnar byggja á tekur mið af þróun undanfarinna áratuga sem gefur til kynna að lífslíkur haldi áfram að aukast um ókomna tíð. Eldri tryggingafræðilegar úttektir hafa byggt á staðalforsendum sem taka einungis mið af reynslutölum úr fortíðinni sem gera ekki ráð fyrir að þróun undanfarinna áratuga um hækkun lífaldurs haldi áfram. Með upptöku nýrra staðalforsendna hækka skuldbindingar sjóðsins um 56 ma. kr. eða sem nemur 11%. Góð ávöxtun sjóðsins undanfarin ár gerir hann vel í stakk búinn til að takast á við framangreindar breytingar. Þannig er áfallin tryggingafræðileg staða nú nærri jafnvægi. Staða sjóðsins gagnvart framtíðarskuldbindingum er hins vegar neikvæð sem nemur tæplega 10% sem gefur til kynna að gera þurfi breytingar á úrskurðartöflum sjóðsins til að sjálfbærni sjóðsins til lengri tíma verði tryggt. Stjórn sjóðsins hefur nú til skoðunar tillögur að samþykktarbreytingum sem aðlaga réttindakerfi sjóðsins að breyttum lýðfræðilegum forsendum og hafa það að markmiði að ná jafnvægi milli eigna og framtíðarskuldbindinga sjóðsins. Þar sem áfallin staða er nú nálægt jafnvægi gefst sjóðnum andrými til að útfæra þessar tillögur í góðu tómi og verður næsta starfsár sjóðsins nýtt í þá vinnu. Mat á lífslíkum er háð mikilli óvissu og því er nauðsynlegt að innleiðing á lækkandi dánartíðni í réttindakerfi sjóðsins bjóði upp á möguleikann á því að gera frekari breytingar ef þróunin reynist á skjön við núgildandi spá.
Á starfsárinu fundaði stjórn Stapa 16 sinnum, þar af í þrígang á sérstökum vinnufundum vegna mótunar fjárfestingarstefnu, stefnumótun á sviði ábyrgra fjárfestinga og þróun réttindakerfisins. Samstarf í stjórn hefur gengið vel. Stjórnarmenn koma með fjölbreytta þekkingu og mismunandi bakgrunn að borðinu og sinna störfum sínum af heilindum og metnaði. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf á árinu.
Eins og fjallað er um hér að framan liggur fyrir að nauðsynlegt er að ráðast í breytingar á réttindakerfi sjóðsins til að stemma stigum við áhrifum af lækkandi dánartíðni. Stjórn sjóðsins gerir ráð fyrir því að tillögur í þeim efnum verði lagðar fyrir ársfund sjóðsins á næsta ári.
Að öðru leyti gerum við ráð fyrir að starfsemi sjóðsins verði með svipuðu sniði á næstu árum. Sjóðurinn mun halda áfram að taka markviss skref í átt að aukinni hagnýtingu stafrænna lausna til að bæta þjónustu, öryggi og skilvirkni í rekstri sjóðsins. Þróun stafrænna lausna mun einnig gegna lykilhlutverki í að viðhalda lágu kostnaðarhlutfalli sjóðsins til framtíðar.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu sem og starfsfólki Stapa fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.
Tryggvi Jóhannsson, stjórnarformaður