Séreignardeild
Lykiltölur 2021
Iðgjöld
Greiðslur iðgjalda til séreignardeildar jukust frá fyrra ári. Þannig námu greidd iðgjöld samtals 378 m.kr. samanborið við 334 m.kr. á árinu 2020. Af inngreiddum iðgjöldum voru tæp 32% eða 120 m.kr. greiddar inn á á húsnæðislán eða greidd út vegna kaupa á fyrstu íbúð. Til sjóðsins voru nettó flutt réttindi frá öðrum sjóðum að upphæð 22 m.kr. Því nema réttindaflutningar og endurgreiðslur á árinu alls 98 m.kr. Að teknu tilliti til þessa voru nettó iðgjöld 280 m.kr. samanborið við 237 m.kr. á árinu 2020 og hækkuðu um 18,1% milli ára.
Aldursdreifing greiðandi sjóðfélaga séreignardeildar er ólík tryggingadeildar, dreifingin er í séreignardeild nokkuð jöfn milli aldurshópa, allt frá aldrinum 21-30 ára til 61-70.
Í maí 2014 veittu stjórnvöld tímabundna heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar til öflunar húsnæðis. Samkvæmt lögunum er heimilt að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og gildir núverandi heimild til 30. júní 2023. Auk þess tóku þann 1. júlí 2017 gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð þar sem veittur er réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól og afborganir lána sem tekin eru vegna kaupa á fyrstu íbúð. Rúmlega 28% greiðandi sjóðfélaga í séreignardeild nýta sér þennan valkost, hlutfall sjóðfélaga sem greiða inn á lán er hæst í aldurshópunum 31-40 ára og 41-50 ára en þar greiða um 45% sjóðfélaga séreign sína inn á lán.
Lífeyrir og sérstök útgreiðsla
Greiðslur úr séreignardeild vegna lífeyris námu 285 m.kr. samanborið við 276 m.kr. árið áður, þar af voru um 57 m.kr. vegna svokallaðrar sérstakrar útgreiðslu séreignar. Alþingi samþykkti þann 30. mars 2020 tímabundna heimild til útgreiðslu á viðbótarlífeyrissparnaði, svipaða þeirri sem var í gildi á árunum 2009-2014. Umsóknarfrestur var frá apríl 2020 til og með 31. desember 2020, sem síðar var framlengdur til 31. desember 2021. Hægt var að taka út allt að 12.000.000 kr. og dreifa þeim á allt að 15 mánuði. Vegna þessa úrræðis voru 104 m.kr. greiddar út á árinu 2020, 57 m.kr. á árinu 2021 og teygjast einhverjar greiðslur fram á árið 2022.
Inneign í séreign er almennt laus til útborgunar við 60 ára aldur en einnig er hægt að sækja um útgreiðslu vegna örorku eða vegna andláts sjóðfélaga.
Yfirleitt eru langflestir lífeyrisþegar séreignardeildar yfir 60 ára en vegna fyrrnefndrar sérstakrar útgreiðslu er aldursdreifing lífeyrisþega dreifðari árin 2020 og 2021 en fyrri ár. Um 170 sjóðfélagar nýttu sér sérstaka útgreiðslu séreignar þessi tvö ár, flestir þeirra voru á aldrinum 30-50 ára. Aðrar útgreiðslur eru fyrst og fremst meðal 60 ára og eldri enda er séreign þá laus til útgreiðslu. Um 78% lífeyrisþega séreignardeildar voru eldri en 60 ára árið 2021.
Fjárfestingartekjur og ávöxtun
Hreinar fjárfestingartekjur séreignadeildar námu 1.258 m.kr. á árinu 2021 og hækkuðu um rúmlega 47% frá árinu 2020. Hrein eign séreignardeildar nam alls 8.420 m.kr. í lok síðasta árs samanborið við 7.204 m.kr. í lok ársins 2020.
Ávöxtun Varfærna safnsins sem og Áræðna safnsins var umfram viðmið ársins. Flestir eignaflokkar skiluðu góðri ávöxtun. Hækkun á innlendum eignum má rekja til lækkandi vaxta framan af ári en hækkun á erlendum eignum skýrist af hækkun á hlutbréfum.
Mismun í ávöxtun áræðna safnsins og varfærna safnsins má meðal annars rekja til hærra vægi hlutabréfa í áræðna safninu á árinu.
Innlána safnið skilaði ávöxtun undir viðmiði, sem má rekja til lækkandi innlánskjara á tímabilinu.