Framsækið réttindakerfi sannar gildi sitt
Undanfarin ár hafa reynt á þolrif fjárfestinga og réttindakerfa íslenskra lífeyrissjóða. Á eignahliðinni hafa átt sér stað feiknalega miklar sveiflur í ávöxtun milli ára og á skuldbindingahliðinni var ný spá um lækkandi dánartíðni innleidd sem leiddi til töluverðrar aukningar skuldbindinga sjóðanna. Framsækið réttindakerfi Stapa stóð vel af sér framangreindar áskoranir. Þar sem sjóðurinn lofar ekki tilteknum réttindum til ævilangra eftirlaunagreiðslna fyrr en við úrskurð þeirra sveiflast réttindasjóður í samræmi við ávöxtun sjóðsins. Þannig ætti góð eða slök ávöxtun ekki að leiða af sér að eignir og skuldbindingar sjóðsins standist ekki á hverju sinni. Af sömu ástæðu getur sjóðurinn uppfært réttindatöflur sínar í samræmi við nýjustu lýðfræðilegu upplýsingar hverju sinni til að endurspegla sem best áætluð eftirlaunaréttindi sjóðfélaga hverju sinni. Sveigjanleiki réttindakerfisins gerir það að verkum að sjóðurinn getur tekist á við framangreindar aðstæður án þess þurfa atbeina ársfundar til að auka eða skerða lífeyrisréttindi sem geta stökkbreytt þeim í einu skrefi.
Sjóðfélagar nýta aukinn sveigjanleika
Samþykktir Stapa gera ráð fyrir að sjóðfélagi geti hafið töku eftirlauna hvenær sem er á aldrinum 60 til 80 ára. Undanfarin tvö ár sjáum við merki þess að sjóðfélagar nýti í auknum mæli þennan sveigjanleika, en greina má mikla fjölgun eftirlaunaúrskurða sjóðfélaga á aldrinum 60 til 66 ára. Sjóðurinn hefur ekki nákvæmar upplýsingar um ástæður þessarar fjölgunar. Gera má ráð fyrir að hún skýrist að einhverju leyti af skerðingaráhrifum greiðslna frá lífeyrissjóðum á greiðslur frá almannatryggingum eftir 67 ára aldurinn.
Skilvirkur rekstur
Rík áhersla er lögð á ráðdeild í rekstri sjóðsins án þess þó að slíkt komi niður á gæðum eða öryggi í þeim verkefnum sem hann fæst við. Þessi stefna endurspeglast í því að kostnaður við rekstur sjóðsins jókst um innan við 1% milli ára og státar sjóðurinn af svipuðu kostnaðarhlutfalli og mun stærri íslenskir lífeyrissjóðir. Sjóðurinn mun á næstu árum auka áherslu á stafrænar lausnir í rekstri til að auka skilvirkni og öryggi í þjónustu sinni við sjóðfélaga.
Ábyrg framkvæmd fjárfestingarstefnu
Stapi er langtímafjárfestir. Skuldbindingar okkar gagnvart sjóðfélögum okkar teygja sig áratugi fram í tímann og því er mikilvægt að þeirra sjónarmiða verði gætt við ávöxtun fjármuna sem okkur er treyst fyrir. Eltingaleikur við skammtímasveiflur mega ekki verða ríkjandi við framkvæmd fjárfestingarstefnu. Undanfarin tvö ár hefur raunávöxtun sjóðsins verið neikvæð en árin þar á undan skilaði sjóðurinn metávöxtun. Þrátt fyrir miklar sveiflur er langtímaraunávöxtun sjóðsins í takti við ávöxtunarmarkmið.
Í mjög einfaldaðri mynd má segja að sjóðurinn ræki hlutverk sitt sem ábyrgur fjárfestir með þrennum hætti eftir eðli fjárfestinga. Hér innanlands fjárfestir sjóðurinn beint í verðbréfum útgefenda og á í beinum samskiptum meðal annars um stjórnarhætti, í samræmi við hluthafastefnu sjóðsins. Erlendis fjárfestir Stapi nær eingöngu gegnum sjóði og þar snýr ábyrgð okkar að því að velja réttan samstarfsaðila hvers viðmið samrýmst stefnu okkar um ábyrgar fjárfestingar. Í þriðja lagi er Stapi aðili að margskonar innlendu og erlendu samstarfi sem miðar að því að auka sjálfbærni fjárfestinga sjóðsins, svo sem Climate Investment Coalition (samstarf um sjálfbærar fjárfestingar) og Festu – miðstöð um sjálfbærni.
Metnaður okkar stendur til þess að þroskast enn frekar sem ábyrgur fjárfestir á næstu árum og taka markviss skref til að komast í fremstu röð meðal íslenskra lífeyrissjóða.
Öflug liðsheild
Á starfsárinu fundaði stjórn Stapa 13 sinnum, þar af einu sinni á sérstökum vinnufundi vegna mótunar fjárfestingarstefnu. Samstarf í stjórn hefur gengið vel. Stjórnarmenn koma með fjölbreytta þekkingu og ólíkan bakgrunn að borðinu og sinna störfum sínum af heilindum og metnaði. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf á árinu.
Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu sem og starfsfólki Stapa fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.
Guðný Hrund Karlsdóttir, stjórnarformaður