Séreignardeild
Lykiltölur 2023
Iðgjöld
Greiðslur iðgjalda til séreignardeildar jukust frá fyrra ári. Þannig námu greidd iðgjöld samtals 480 m.kr. samanborið við 422 m.kr. á árinu 2022. Af iðgjöldum voru tæp 28% eða 136 m.kr. greiddar inn á húsnæðislán eða greidd út vegna kaupa á fyrstu íbúð. Frá sjóðnum voru nettó flutt réttindi til annarra sjóða um 13 m.kr. Því nema réttindaflutningar og endurgreiðslur á árinu alls um 149 m.kr. Að teknu tilliti til þessa voru nettó iðgjöld 331 m.kr. samanborið við 296 m.kr. á árinu 2022 og hækkuðu um 12,0% milli ára.
Aldursdreifing greiðandi sjóðfélaga séreignardeildar er ólík tryggingadeildar, dreifingin er í séreignardeild nokkuð jöfn milli aldurshópa.
Í maí 2014 veittu stjórnvöld tímabundna heimild til ráðstöfunar séreignarsparnaðar til öflunar húsnæðis. Samkvæmt lögunum er heimilt að ráðstafa séreignarsparnaði skattfrjálst inn á höfuðstól veðlána sem tekin voru til öflunar íbúðarhúsnæðis til eigin nota og gildir núverandi heimild til 30. júní 2023. Auk þess tóku þann 1. júlí 2017 gildi lög nr. 111/2016 um stuðning til kaupa á fyrstu íbúð þar sem veittur er réttur til að nýta séreignarsparnað skattfrjálst sem innborgun eða til að greiða niður höfuðstól og afborganir lána sem tekin eru vegna kaupa á fyrstu íbúð. Um 27% greiðandi sjóðfélaga í séreignardeild nýta sér þennan valkost, hlutfall sjóðfélaga sem greiða inn á lán er hæst í aldurshópunum 31-40 ára og 41-50 ára en þar greiða um 47% sjóðfélaga séreign sína inn á lán.
Lífeyrir
Greiðslur úr séreignardeild vegna lífeyris námu 277 m.kr. samanborið við 244 m.kr. árið áður. Á árinu 2022 voru 17 m.kr. vegna svokallaðrar sérstakrar útgreiðslu séreignar en engar árið 2023.
Inneign í séreign er almennt laus til útborgunar við 60 ára aldur en hægt að sækja um útgreiðslu fyrr vegna örorku eða vegna andláts sjóðfélaga. Árið 2023 voru um 86% lífeyrisþega eldri en 60 ára.
Fjárfestingartekjur og ávöxtun
Hreinar fjárfestingartekjur séreignadeildar voru jákvæðar um 669 m.kr. á árinu samanborið við neikvæðar fjárfestingartekjur að fjárhæð 701 m.kr. á árinu 2022. Hrein eign séreignardeildar nam alls 8.418 m.kr. í lok ársins samanborið við 7.732 m.kr. í lok ársins 2022.
Flestir eignaflokkar skiluðu jákvæðri ávöxtun, að undanskildum sérhæfðum erlendum fjárfestingum. Góð ávöxtun var á innlendum vaxtamörkuðum. Svartsýni ríkti á innlendum hlutabréfamarkaði framan af ári en bjartara var yfir á seinni hluta ársins þegar væntingar voru um að stýrivextir hefðu náð hámarki og lækkandi verðbólga myndi verða upphaf á vaxtalækkunarferli Seðlabanka. Ávöxtun á erlendum mörkuðum var einnig góð, sér í lagi erlend hlutabréf.
Ávöxtun varfærna safnsins og áræðna safnsins voru um eða yfir viðmiðunarvísitölum. Nafnávöxtun varfærna safnsins var 7,8% samanborið við 7,3% og nafnávöxtun áræðna safnsins var 8,4% í samanburði við 8,5% ávöxtun. Helsta skýring á mismun í ávöxtun er vægi hlutabréfa í viðkomandi söfnum.
Innlána safnið skilaði ávöxtun umfram viðmiði, sem má rekja til hækkandi innlánskjara á tímabilinu.