Sveigjanlegt réttindakerfi
Árið 2024 reyndist afar hagfellt í rekstri Stapa lífeyrissjóðs. Ávöxtun eignasafnsins var með besta móti, eða um 12% sem jafngildir 6,2% raunávöxtun – langt umfram 3,5% raunávöxtunarmarkmið sjóðsins. Allir eignaflokkar sjóðsins skiluðu jákvæðri ávöxtun. Sjóðurinn sætti lagi og nýtti hagfelldar markaðsaðstæður til að selja áhættumeiri eignir sjóðsins, innlend og erlend hlutabréf, og fjárfesta andvirðinu og hreinum iðgjöldum í innlendum og erlendum skuldabréfum.
Þar sem réttindakerfi sjóðsins fleytir ávöxtun beint inn í réttindasjóð sjóðfélaga hækkuðu óúrskurðuð réttindi einnig um 12% á árinu. Þá urðu einnig breytingar á lýðfræðilegum forsendum við tryggingafræðilega athugun sem fólu í sér lækkaðar örorkulíkur í hópi sjóðfélaga Stapa frá því sem áður hefur verið. Af þessum orsökum batnaði tryggingafræðileg staða sjóðsins nokkuð milli ára og er nú jákvæð um sem nemur 4,4% - sem er öfundsverð staða meðal íslenskra lífeyrissjóða í dag.
Framsækið réttindakerfi sjóðsins sannar þar með enn og aftur sveigjanleikann sem í því felst. Frá upptöku nýs réttindakerfis Stapa árið 2016 hafa orðið gríðarlegar sveiflur á ávöxtun milli ára, nýjar framsýnar lífslíkur teknar upp og breytingar gerðar á forsendum um nýgengi örorku. Réttindasjóðir sjóðfélaga hafa í gegnum þetta aðeins tekið breytingum í samræmi við ávöxtun eigna og ársfundur ekki þurft að skerða réttindi eins og þau birtast í réttindakerfi sjóðsins. Það verður áfram verkefni okkar sem stöndum að sjóðnum að þróa áfram einstakt réttindakerfi Stapa og kynna það í hópi íslenskra lífeyrissjóða.
Sjóðfélagalán í miklum vexti
Stapi hóf að veita fasteignalán til sjóðfélaga á árinu 2018. Sjóðurinn býður enn sem komið er aðeins upp á verðtryggð lán og sveiflast eftirspurn eftir lánum því töluvert eftir efnahagsástandi hverju sinni, en undanfarin tvö ár hefur orðið gríðarleg aukning í eftirspurn sjóðfélagalána. Á árinu 2024 lánaði sjóðurinn þannig 332 ný lán að fjárhæð tæplega 13 ma.kr. sem var um 15% aukning frá fyrra ári. Sjóðfélagalán voru um sl. áramót rúmlega 4% af heildareignum sjóðsins. Nánast engin vanskil eru í eignaflokknum sem er örugg viðbót í eignasafni sjóðsins sem skilar góðri áhættuveginni ávöxtun. Stapi stefnir að áframhaldandi vexti sjóðfélagalána sem hlutfall af heildareignum á næstu árum.
Umgjörð tilgreindrar séreignar þarfnast endurskoðunar
Stapi hefur undanfarin ár reynt að vekja athygli hagaðila á þeirri stöðu sem nú er uppi í málefnum tilgreindrar séreignar. Með tilkomu umboðssölu innlendra vátryggingamiðlara á vörum erlendra vörsluaðila hefur átt sér stað stökkbreyting í nýtingu tilgreindrar séreignar hjá Stapa. Á nýliðnu ári var 73% iðgjalda tilgreindrar séreignar hjá Stapa, eða tæplega 600 m.kr., vísað til annarra vörsluaðila – að mestu leyti fyrir tilstilli þessa umboðssölufyrirkomulags. Auknir valmöguleikar sjóðfélaga Stapa í fyrirkomulagi lífeyrissparnaðar eru af hinu góða. Þessum samningum fylgja hins vegar oftast tugprósenta kostnaður sem þekkjast ekki hjá íslenskum lífeyrissjóðum. Þá benda frásagnir sjóðfélaga okkar til þess að starfsháttum þessara umboðssöluaðila sé verulega ábótavant, svo vægt sé til orða tekið. Ljóst er að breytinga er þörf á umgjörð tilgreindrar séreignar til að vernda hagsmuni íslenskra launþega. Sjóðurinn mun áfram fylgja þessum málum eftir til að gæta hagsmuna sjóðfélaga sinna.
Auknum kröfum mætt með hagkvæmum hætti
Stapi hefur undanfarin ár lagt áherslu á aukna hagnýtingu stafrænna lausna til að bæta enn frekar skalanleika í rekstri sjóðsins. Þannig ætti rekstrarkostnaður ekki að þurfa að hækka línulega í samræmi við aukin umsvif sjóðsins. Á undanförnum árum hafa kröfur til íslenskra lífeyrissjóða farið vaxandi með tilkomu sjálfbærni- og upplýsingatækniregluverks. Þrátt fyrir það hefur með ráðdeild í rekstri tekist að halda kostnaðarhlutfalli sjóðsins óbreyttu og í svipuðum gildum og hjá mun stærri íslenskum lífeyrissjóðum. Sjóðurinn mun áfram leggja áherslu á ráðdeild í rekstri og leita allra leiða til að mæta auknum kröfum eftirlitsaðila og hagaðila á skynsaman og hagkvæman hátt með hagsmuni sjóðfélaga að leiðarljósi.
Sanngjörn fjármögnun á endurbættu almannatryggingakerfi
Í júlí á síðasta ári voru samþykkt lög sem fólu í sér töluverðar breytingar á örorkulífeyri almannatrygginga. Verkefnið, sem kynnt var undir nafninu „Öll með“, á „að stuðla að bættum kjörum, aukinni virkni og meira öryggi og vellíðan fólks“. Lagabreytingarnar taka að óbreyttu gildi 1. september næstkomandi. Stjórn Stapa fagnar vilja hins opinbera til að bæta kjör öryrkja. Hins vegar hefur komið fram í opinberri umræðu að breytingarnar verði fjármagnaðar með lækkun framlags til jöfnunar á örorkubyrði lífeyrissjóða. Þar með er verið að blanda saman tveimur ótengdum málefnum. Íslenskir lífeyrissjóðir búa við ólíka örorkubyrði sem helst tengist þeim starfsstéttum sem greiða til hvers sjóðs. Hækkun örorkulífeyris almannatrygginga hefur engin áhrif á þessa stöðu og verði framlagið fellt niður mun það hafa áhrif á getu þeirra lífeyrissjóða sem búa við hærri örorkubyrði en meðalsjóðurinn, líkt og Stapi, til að greiða eftirlaun. Það er því afar mikilvægt að fundin verði sanngjörn fjármögnun á endurbættu almannatryggingakerfi sem mismunar ekki sjóðfélögum eftir því í hvaða lífeyrissjóð hann greiðir.
Árangursríkt starfsár
Á starfsárinu fundaði stjórn Stapa 14 sinnum, þar af einu sinni á sérstökum vinnufundi vegna mótunar fjárfestingarstefnu. Samstarf í stjórn hefur gengið vel. Stjórnarmenn koma með fjölbreytta þekkingu og ólíkan bakgrunn að borðinu og sinna störfum sínum af heilindum og metnaði. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf á árinu.
Einnig vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu sem er að líða.
Starfsfólki Stapa þakka ég sérstaklega fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf. Það má með sanni segja að Stapi búi yfir miklum auði í sínu starfsfólki, þeim þakka ég sérstaklega fyrir vel unnin störf og aðstoð á starfsárinu.
Elsa Björg Pétursdóttir, stjórnarformaður