Nafnávöxtun 2024
Tryggingadeild
Verðbréfaeignir tryggingadeildar Stapa lífeyrissjóðs í árslok 2024, metnar á markaðsvirði, námu 416 mö. kr. samanborið við rúmlega 367 ma.kr. í árslok 2023. Áfram hefur verið dregið úr vægi íslenskra ríkisskuldabréfa í eignasafni sjóðsins, sem að stærstu leyti má rekja til aukningar í sjóðfélagalánum.
Um áramót voru erlend hlutabréf stærsti einstaki eignaflokkurinn sem nemur 31% af heildareignum. Hlutfall erlendra eigna af heildareignum stendur í stað milli ára.
2024 Eignir í árslok (ma. kr.) |
2024 |
2023 |
2023 |
|
Ríkisskuldabréf | 48,2 | 12% | 44,4 | 12% |
Önnur markaðsskuldabréf | 88,5 | 21% | 81,0 | 22% |
Veðskuldabréf og fasteignir | 33,9 | 8% | 25,8 | 7% |
Innlend hlutabréf | 72,2 | 17% | 64,2 | 18% |
Erlend skuldabréf | 20,0 | 5% | 16,6 | 5% |
Erlend hlutabréf | 126,7 | 30% | 112,0 | 30% |
Sérhæfðar erlendar fjárfestingar | 19,0 | 5% | 18,4 | 5% |
Skammtímabréf og innlán | 7,2 | 2% | 4,9 | 1% |
Samtals | 415,8 | 100% | 367,2 | 100% |
Eignahlutfall og tryggingafræðileg staða
Tryggingaeignir, sem innihalda áhættuminni eignir, svo sem innlend og erlend skuldabréf og handbært fé, hafa lækkað úr tæplega 59% í 48% á síðastliðnum tíu árum. Ávöxtunareignir sem innihalda áhættumeiri eignir, innlend og erlend hlutabréf ásamt sérhæfðum erlendum eignum, hafa hækkað úr 41% í 52% á sama tíma.
Tryggingafræðileg staða var jákvæð um 4,4% í árslok 2024. Jákvæða tryggingafræðilega afkomu má að stærstu leyti rekja til
ávöxtunar eigna sjóðsins á árinu sem var töluvert umfram 3,5% raunávöxtunarmarkmið sjóðsins.
Þá urðu breytingar á bæði staðalforsendum um nýgengi örorku, makalíkum og barneignalíkum og aðlögun staðalforsendna til lækkunar á skuldbindingu sjóðsins vegna áfallalífeyris. Jákvæð áhrif þessara breytinga á lýðfræðilegum forsendum í tryggingafræðilegri athugun nema 1.877 m.kr.
Hlutfall erlendra eigna
Á síðustu árum hefur verið lögð áhersla á að auka hlutfall erlendra eigna og dreifingu eignasafnsins. Vægi erlendra hlutabréfa var því aukið verulega á árunum 2017 – 2023 en óveruleg breyting varð á hlutfalli erlendra eigna árið 2024.
Í fjárfestingarstefnu 2025 var tekin sú ákvörðun að halda hlutfallinu óbreyttu fyrir árið 2025 sökum óvissu, sér í lagi á erlendum hlutabréfamörkuðum.
Samanburður á verðbréfaeign og samsetningu viðmiðs
Eignasamsetning Stapa í árslok var í nokkru samræmi við fjárfestingarstefnu 2024. Helstu frávik tengjast minna vægi í innlendum skuldabréfum en stefnt var að í upphafi árs en á móti var vægi skammtímabréfa og innlána töluvert meira en stefnan sagði til um.
Góð ávöxtun innlendra hlutabréfa hafði einnig áhrif á vægi flokksins til hækkunar samanborið við stefnu.
Sjóðfélagalán
Stapi hóf veitingu íbúðalána til sjóðfélaga árið 2018 en boðið er upp á verðtryggð lán með föstum eða breytilegum vöxtum.
Á árinu 2024 varð töluverð fjölgun í veittum lánum. Alls veitti sjóðurinn lán fyrir rúma 12 ma. kr. til 332 einstaklinga en fyrir rúma 9 ma. árið 2023 kr. til 274 sjóðfélaga. Langflestir tóku lán með breytilegum vöxtum en fjöldi þeirra sem valdi fasta vexti jókst þó verulega ´a árunum 2023 og 2024.
Meðallánsfjárhæð hækkaði milli ára úr 33 m.kr. árið 2023 í 38 m.kr. árið 2024 en veðhlutfall stóð nánast í stað, var 57% borið saman við 58% á árinu 2023.
Lánst´mi hækkaði lítillega, úr 32 árum í 33 ár. Í árslok 2024 voru sjóðfélagalán 4,1% af eignasafni tryggingadeildar en 3,3% árið 2023.
2024 | 2023 | Breyting | |
Fjöldi lána | 332 | 274 | 17,5% |
Meðallánsfjáræð m.kr. | 38 m.kr | 33 m.kr. | 15,2% |
Meðalveðhlufall | 57% | 58% | -1,0% |
Meðallánstími (ár) | 33 ár | 32 ár | 3,1% |
Hlutfall af tryggingadeild | 4,1% | 3,3% | 24,2% |
Fjárfestingartekjur og ávöxtun
Árið 2024 var almennt gott ár á eignamörkuðum, þar sem allir eignaflokkar skiluðu jákvæðri nafnávöxtun. Verðbólga hjaðnaði töluvert á árinu og eftir fjögurra ára tímabil hárra vaxta og verðbólgu hóf Seðlabankinn vaxtalækkunarferli í október.
Innlendur hlutabréfamarkaður var kaflaskiptur á árinu. Eftir góða byrjun tóku við krefjandi mánuðir þegar ljóst var að verðbólgan gekk hægar niður en vonir stóðu til. Viðsnúningur varð á haustmánuðum þegar væntingar um að vaxtalækkunarferli Seðlabankans væri að hefjast. Í kjölfarið skiluðu innlend hlutabréf hæstu ávöxtun ársins meðal eignaflokka safnsins. Ávöxtun erlendra hlutabréfa fylgdi skammt á eftir en einnig var ávöxtun á innlendum skuldabréfum um og yfir væntingum.
Ávöxtunarframlag var mest af erlendum hlutabréfum (4,6%) en lítið sem ekkert framlag kom frá sérhæfðum erlendum eignum (0,0%) og skammtímabréfum og innlánum (0,0%), enda flokkarnir með lítið vægi af heildareignum sjóðsins. Ávöxtunarframlag innlendra eigna var einnig ágætt á árinu.
Hreinar fjárfestingartekjur tryggingadeildar voru um 42.874 m.kr. á árinu samanborið við 21.761 m.kr. á árinu 2023.
Nafnávöxtun á árinu 2024 nam um 11,3% samanborið við 6,2% nafnávöxtun árið 2023. Raunávöxtun ársins var um 6,3% samanborið við neikvæða ávöxtun upp á 1,7% árið 2023.
Sé horft er til lengra tímabils en eins árs, líkt og eðlilegt er í tilviki lífeyrissjóðs, má sjá að töluverðar sveiflur eru í ávöxtun á milli ára. Viðmið sjóðsins er að skila árlegri 3,5% raunávöxtun. Neikvæð raunávöxtun áranna 2022 og 2023, þá sér í lagi 12,6% neikvæð raunávöxtun ársins 2022, vegur þungt í því að draga niður langtímaávöxtun sé horft yfir lengra tímabil. Sé horft til síðustu 5 ára er árleg raunávöxtun 2,37%, sem er undir viðmiði en sé horft til síðustu 10 ára er ávöxtun yfir umræddu viðmiði.
Séreignardeild
Hreinar fjárfestingartekjur séreignadeildar voru jákvæðar um 1.201 m.kr. á árinu 2024 samanborið við fjárfestingartekjur að fjárhæð 669 m.kr. í árslok 2023. Hrein eign séreignardeildar nam alls 9.700 m.kr. í árslok 2024 samanborið við 8.418 m.kr. í lok árs 2023.
Árið 2024 var almennt gott á eignamörkuðum og skiluðu allir eignaflokkar jákvæðri nafnávöxtun. Líkt og í tryggingadeild skiluðu innlend hlutabréf hæstri ávöxtun en ávöxtun erlendra hlutabréfa fylgdi skammt á eftir.
Ávöxtun varfærna safnsins og áræðna safnsins voru um eða yfir viðmiðunarvísitölum. Nafnávöxtun varfærna safnsins var 12,7% samanborið við 12,5% og nafnávöxtun áræðna safnsins var 14,4% í samanburði við 13,6% ávöxtun. Helsta skýring á mismun í ávöxtun er vægi hlutabréfa í viðkomandi söfnum.
Innlána safnið skilaði ávöxtun umfram viðmiði, sem má rekja til hárra innlánskjara á tímabilinu.
Tilgreind séreignardeild
Hreinar fjárfestingartekjur tilgreindrar séreignardeildar voru 98 m.kr. á árinu 2024. Hrein eign deildarinnar voru 1.064 m.kr. í lok árs 2024 en nettó innflæði á árinu nam um 220 m.kr.
Nafnávöxtun tilgreindrar séreignar var 10,8% á árinu 2024, sem er undir viðmiði.
Vegna smæðar tilgreindrar séreignardeildar í heild er einungis í boði sem stendur að ráðstafa sparnaði í tilgreinda varfærna safnið.
Þar sem deildin er í hraðri uppbyggingu og innflæði er hlutfallslega hátt í hverjum mánuði geta miklar verðsveiflur á markaði verið að einhverju leiti komnar fram þegar inngreiðslur eru að skila sér. Þetta getur leitt til sveiflna í ávöxtun samanborið við viðmið.