Ávarp stjórnarformanns
Ávöxtun sjóðsins
Ávöxtun eigna Stapa lífeyrissjóðs á árinu 2019 var með besta móti enda skiluðu allir eignaflokkar sjóðsins jákvæðri ávöxtun á árinu. Niðurstaðan var rúmlega 10% raunávöxtun sem er besta ávöxtun í sögu sjóðsins í núverandi mynd. Langtímaávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,1%.
Réttindakerfi Stapa virkar á þann hátt að iðgjaldi sjóðfélaga er varið annars vegar í áfallatryggingar og hins vegar til myndunar réttindasjóðs. Þegar kemur að töku eftirlauna er réttindasjóðnum breytt í ævilangar mánaðarlegar greiðslur skv. töflum í samþykktum sjóðsins. Réttindasjóðurinn ávaxtast eins og hrein ávöxtun eigna sjóðsins. Ávöxtunin er mæld með eignavísitölu Stapa sem hækkaði um 13% á árinu. Þetta þýðir að réttur sjóðfélaga okkar til eftirlauna hækkaði um 13% á árinu.
Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris heldur áfram örum vexti, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2019 nam hún 256.133 milljónum króna og hækkaði um 35.427 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 249.521 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 6.612 milljónum.
Áherslur í eignastýringu
Stapi hefur frá árinu 2015 starfað samkvæmt Leiðbeiningum og stefnumiði um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar sem stjórn sjóðsins hefur samþykkt. Í leiðbeiningunum koma fram upplýsingar um hvernig Stapi metur stjórnarhætti fyrirtækja þar sem sjóðurinn er fjárfestir eða hyggst fjárfesta og leiðsögn um þær kröfur sem hann gerir til viðkomandi fyrirtækja. Á árinu hóf Stapi að vinna að innri og ytri skýrslugjöf varðandi framkvæmd stefnu sinnar sem félagslega ábyrgur fjárfestir. Í ársskýrslu sjóðsins má nú nálgast upplýsingar um hlutfall útgefenda og eignastýrenda í eignasafni sjóðsins sem fylgja viðmiðum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (United Nations Principles for Responsible Investment). Á næstu árum mun upplýsingagjöf Stapa í þessu málaflokki vaxa sem og eftirfylgni og aðgerðir okkar til að tryggja að markmiðum stefnu okkar sem fjárfestis nái fram að ganga.
Stapi hefur frá árinu 2018 á heimasíðu sinni gert grein fyrir beitingu atkvæðaréttar sjóðsins á hluthafafundum skráðra innlendra hluthafafélaga. Með þessu frumkvæði vill sjóðurinn sýna í verki ábyrgð gagnvart sjóðfélögum, hlutaðeigandi fyrirtækjum og öðrum hagaðilum og auka gegnsæi í starfsemi sjóðsins. Þá er Stapi stofnaðili að IcelandSIF sem eru íslensk samtök um ábyrgar fjárfestingar og aðili að Alþjóðasamtökum framtaksfjárfesta (e. Institutional Limited Partners Association).
Frá fullu afnámi gjaldeyrishafta árið 2017 hefur fjárfestingarstefna Stapa miðað við að gjaldeyriseignir sjóðsins aukist með beinum kaupum á gjaldeyri um 2% af heildareignum á ári. Á tímabilinu hefur hlutfall erlendra eigna í safni sjóðsins aukist úr 24% í 32%. Hækkandi hlutfall erlendra eigna í safni Stapa er mikilvægt út frá áhættudreifingarsjónarmiðum í ljósi þeirrar miklu samþjöppunaráhættu sem felst í háu hlutfalli innlendar verðbréfaeignar á nokkuð fábrotnum verðbréfamarkaði. Stjórn Stapa hefur sett sjóðnum það markmið til lengri tíma að hlutfall erlendra eigna í eignasafni verði allt að 40%. Að óbreyttu má búast við að því markmiði verði náð innan fárra ára.
Sjóðfélagalán
Á undanförnum árum hafa sjóðfélagalán Stapa byggst upp sem eignaflokkur sem mun ásamt ríkisskuldabréfum og öðrum tryggum skuldabréfum mynda hryggjarstykkið í eignasafni sjóðsins. Frá því að sjóðurinn hóf að veita sjóðfélagalán í núverandi mynd árið 2018 hefur Stapi lánað á fjórða hundrað lán fyrir tæplega 7,5 milljarða króna. Á nýliðnu ári veitti sjóðurinn 214 sjóðfélagalán fyrir rúmlega 5,1 milljarð króna og nemur eignaflokkurinn nú 3% af heildareignum Stapa. Gert er ráð fyrir að sjóðfélagalán vaxi sem hlutdeild af eignum sjóðsins um 1% árlega og til lengri tíma má gera ráð fyrir að þau verði allt að 10% af heildareignum Stapa samhliða sölu og uppgreiðslum á ríkisskuldabréfum í eigu sjóðsins.
Lífeyrisbyrði og tryggingafræðileg staða
Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 6.408 milljónum króna og hækkuðu um 12,9% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.261 og fjölgaði um 641 frá fyrra ári.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist á árinu, er neikvæð um 0,4%, en var neikvæð um 1,8% í lok árs 2018. Við mat á skuldbindingum sjóðsins er nú notast við lífslíkur áranna 2014-2018 en fyrra mat byggði á tímabilinu 2010-2014. Breyttar reikniforsendur hafa neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins sem nemur 0,6%.
Skerðingar hins opinbera
Enn hafa engar leiðréttingar verið gerðar á skerðingum í almannatryggingakerfinu gagnvart lífeyrisþegum. Stjórnvöld hafa lýst því yfir að þau hyggist endurskoða lífeyriskerfið. Ég tel það mjög mikilvægt að bakland lífeyrissjóðanna komi þar með virkum hætti inn til þess að tryggja réttindi sjóðfélaga sem best og hafa Landssamtök lífeyrissjóða lagt áherslu á að koma þessari endurskoðun.
Störf stjórnar
Á starfsárinu hélt stjórn Stapa 13 bókaða stjórnarfundi, þar með talinn tveggja daga fund þar sem fjárfestingar- og áhættustefna sjóðsins var undirbúin og mótuð. Þá fundaði endurskoðunarnefnd sjóðsins fimm sinnum á árinu, en hún er eina starfandi undirnefnd stjórnar.
Sjóðurinn framkvæmdi í annað sinn eigin áhættumat á árinu en að þessu sinni var lögð áhersla á nánari skoðun landsáhættu í eignasafni sjóðsins en stjórn sjóðsins ákvarðar áhersluatriði hverju sinni. Niðurstöður áhættumatsins eru kynntar í stjórn og mynda grunn að breytingartillögum hvað varðar fjárfestingarstefnu, áhættustefnu, áhættustýringarstefnu og öðrum verkferlum.
Stjórn sjóðsins boðaði á árinu 2019 til fyrsta fulltrúaráðsfundar sjóðsins en skv. breytingum sem samþykktar voru á síðasta ársfundi sjóðsins skal boða til fundanna að hausti og í aðdraganda ársfundar. Stjórnendur sjóðsins funduðu með fulltrúaráðsmönnum víðsvegar um starfssvæðið og fóru yfir framvindu fjárfestingarstefnu, réttindakerfi Stapa og ný ákvæði samþykkta sjóðsins varðandi fulltrúaráðsfundi.
Þróun og horfur
Heimsfaraldur kórónaveirunnar hefur haft töluverð áhrif á rekstur og eignir sjóðsins. Notendur þjónustu Stapa eru eðli málsins samkvæmt í skilgreindum áhættuhópum sökum aldurs eða veikinda. Til að vernda þá sem og til að tryggja samfelldan rekstur sjóðsins var skrifstofum Stapa lokað 20. mars og erindum sjóðfélaga sinnt með rafrænum hætti gegnum tölvupóst, sjóðfélagavef og síma. Þá hefur sjóðurinn tekið sín fyrstu skref í notkun rafrænna undirritana til að minnka smithættu. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til með það að markmiði að auka vægi rafrænna samskipta innan og utan sjóðsins verði þróaðar áfram sem hluti af hefðbundinni starfsemi sjóðsins.
Miklar sveiflur hafa átt sér stað á eignamörkuðum í kjölfar áhrifa COVID-19 og sóttvarnaraðgerða tengdum veirunni og hafa innlend og erlend hlutabréf lækkað nokkuð í verði. Lágt áhættustig sjóðsins og dreifð eignasamsetning hafa dregið úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild. Óúrskurðuð réttindi í réttindakerfi Stapa þróast að mestu í takti við breytingu á eignavísitölu sjóðsins. Því munu breytingar á eignaverði hafa minni áhrif á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar en ella. Gert er ráð fyrir að ávöxtun sjóðsins standi undir vexti skuldbindinga til framtíðar litið og að réttindakerfi sjóðsins tryggi jafnvægi þar á milli.
Viðbrögð við heimsfaraldrinum sem snerta starfsemi Stapa með beinum hætti hafa verið fjölþætt. Hluti af aðgerðum ríkisstjórnar var að veita almenningi tímabundna heimild til úttektar séreignarsparnaðar fyrir allt að 12 milljónir króna. Þá gerðist Stapi aðili að samkomulagi um greiðslufresti fyrirtækja vegna heimsfaraldursins líkt og aðrir lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki. Einnig bauð sjóðurinn greiðendum sjóðfélagalána upp á möguleika á allt að 6 mánaða frestun afborgana lánanna vegna tekjumissis vegna heimsfaraldursins. Hugsanleg áhrif af framangreindum aðgerðum hafa verið metin og eru ekki talin hafa merkjanleg áhrif á rekstur sjóðsins. Hins vegar er ljóst að nokkur áskorun er framundan hjá sjóðnum hvað varðar innheimtu iðgjalda þar sem margir launagreiðendur hafa orðið fyrir verulegu tekjufalli sem sjóðurinn hefur takmarkaða heimild skv. lögum og samþykktum til að bregðast við.
Ársfundi sjóðsins 2019 var í fyrsta skiptið streymt í beinni útsendingu gegnum heimasíðu sjóðsins. Fulltrúaráðsfundur sjóðsins í aðdraganda ársfundar verður haldinn rafrænt og líkur eru á að ársfundur ársins 2020 verði það einnig. Ef horft er til þess að starfssvæði sjóðsins er gríðarlega víðfeðmt og að með nýlegum breytingum á samþykktum hefur samkomum fulltrúaráðs verið fjölgað í þrjár á ári gæti það reynst Stapa heppilegt að nýta rafræna fundi til framtíðar. Þannig má draga úr nauðsynlegum ferðalögum fundarmanna, bæta þátttöku fundarmanna og upplýsingagjöf. Nánari útfærsla á rafrænum fundum verður unnin í samráði við aðildarfélög sjóðsins.
Á undanförnum árum hefur starfsemi sjóðsins eflst samhliða örum vexti hans. Unnið hefur verið markvisst að því að styrkja innviði sjóðsins á öllum sviðum til að takast á við aukin umsvif hans. Sjóðurinn er því vel í stakk búinn til að takast á við áskoranir sem stafa af innra og ytra umhverfi hans á næstu misserum, sjóðnum og sjóðfélögum til góða. Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu. Sérstakar þakkir færum við starfsfólki Stapa fyrir fagmennsku, lipurð og jákvæðni í þeim óvenjulegu aðstæðum sem sköpuðust vegna áhrifa COVID-19 á starfsemi sjóðsins.