Fara í efni

Tilgangur

Góðir stjórnarhættir eru að mati Stapa lífeyrissjóðs forsenda þess að starfsemi sjóðsins sé árangursrík og að sjóðurinn nái markmiðum sínum. Með góðum stjórnarháttum vill sjóðurinn leggja grunn að vönduðum og faglegum vinnubrögðum og góðum og uppbyggilegum samskiptum við sjóðfélaga og launagreiðendur sem greiða iðgjöld til sjóðsins. Þannig er stuðlað að trausti í samskiptum stjórnenda og starfsmanna sjóðsins við sjóðfélaga, launagreiðendur, viðskiptamenn og aðra þá sem samskipti eiga við sjóðinn. Hluti af góðum stjórnarháttum er að stefna að því að þjónusta sjóðsins sé ávallt til fyrirmyndar, hann ráði yfir öflugri upplýsingatækni og stuðli að gagnsæi í starfsemi sinni með því að veita góðar og áreiðanlegar upplýsingar.

Við mótun stjórnarhátta hafa stjórnendur og stjórn sjóðsins haft til hliðsjónar almennt viðurkennd sjónarmið og leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja.

 Hlutverk Stapa lífeyrissjóðs

Samkvæmt lögum er öllum launamönnum og þeim sem stunda atvinnurekstur eða sjálfstæða starfsemi, rétt og skylt að tryggja sér lífeyrisréttindi með aðild að lífeyrissjóði frá 16 ára aldri til 70 ára aldurs. Þessari skyldutryggingu lífeyrisréttinda er ætlað að veita lágmarks tryggingavernd á þeim tímabilum ævinnar, þegar launatekna nýtur ekki við. Auk þessa gera lögin ráð fyrir því að einstaklingar geti safnað viðbótarlífeyrissparnaði til að stuðla að meiri sveigjanleika við starfslok eða rýmri fjárráðum á eftirlaunaárunum. Markmið laganna er að stuðla að tryggari fjárhagslegri framtíð starfandi fólks með því að byggja upp lífeyrisréttindi á starfsævinni. Stapi lífeyrissjóður er deildaskiptur sjóður, sem bæði veitir skyldutryggingu og býður upp viðbótarlífeyrissparnað.

Tryggingadeild sjóðsins sinnir skyldutryggingu lífeyrisréttinda og séreignardeildir hans bjóða upp á mismunandi sparnaðarleiðir í viðbótarlífeyrissparnaði. Hlutverk Stapa er að stuðla að fjárhagslegu öryggi sjóðfélaga sinna, maka þeirra og barna. Þetta gerir sjóðurinn með því tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins, þegar þeir láta af störfum að lokinni starfsævi eða verða fyrir áföllum vegna fráfalls eða skertrar starfsorku. Starfsemi sjóðsins felst í að taka við iðgjöldum frá sjóðfélögum, ávaxta þau og endurgreiða í formi lífeyris.

 Lög og reglur um stjórnarhætti sem Stapi lífeyrissjóður fylgir

Stapi lífeyrissjóður starfar samkvæmt starfsleyfi frá Fjármálaráðuneytinu. Sjóðurinn starfar eftir gildandi lögum nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða. Stapi er eftirlitsskyldur aðili í samræmi við lög nr. 87/1998 um eftirlit með fjármálastarfsemi. Ýmis önnur lög taka til þátta í rekstri sjóðsins, auk reglugerða sem settar eru samkvæmt lögum, sem og reglur og leiðbeinandi tilmæli sem Fjármálaeftirlitið hefur sett um starfsemi lífeyrissjóða.

Þessu til viðbótar hefur sjóðurinn sjálfur sett sér reglur til að sinna hlutverki sínu sem best, s.s. starfsreglur stjórnar, skilgreiningu á óvenjulegum og mikilsháttar ráðstöfunum, reglur um lykilstarfsmenn, verklagsreglur um verðbréfaviðskipti, siðareglur, reglur um upplýsingagjöf til stjórnar, reglur um upplýsingagjöf til sjóðfélaga, reglur um fjárfestingarráð og heimildir þess og samskipti við framkvæmdastjóra og stjórn, reglur um endurskoðunarnefnd, reglur um varnir gegn peningaþvætti, auk fleiri reglna sem taka til einstakra þátta í starfsemi sjóðsins. Yfirlit yfir reglur um starfsemi sjóðsins má finna á heimasíðu hans www.stapi.is.

 Hlutverk stjórnar og skipulag Stapa lífeyrissjóðs

Samkvæmt lögum ber stjórn Stapa lífeyrissjóðs ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Hún skal móta fjárfestingarstefnu, móta innra eftirlit, skjalfesta eftirlitsferla og móta eftirlitskerfi sem gera sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn sjóðsins hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá stjórn sjóðsins. Hlutverk stjórnar er að kynna sér, gera sér grein fyrir og móta stefnu um þá áhættu sem fylgir starfsemi sjóðsins, þ.m.t. að setja henni ásættanleg mörk. Hluti þeirrar vinnu felst í að móta sérstaka áhættustefnu, ganga frá áhættuáætlun og móta fjárfestingarstefnu, sem skilað er inn til Fjármálaeftirlits árlega.

Stjórn sjóðsins er kjörin á ársfundi hans og er hún skipuð átta einstaklingum og skulu kynjahlutföll vera jöfn. Kjörnir eru fjórir varamenn og gilda sömu reglur um þá. Stjórnin skipar endurskoðunarnefnd, sem í eiga sæti þrír einstaklingar, og regluvörð.

Nánari upplýsingar um skipurit Stapa lífeyrissjóðs má finna á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is.

 Innra eftirlit og áhættustýring

Innra eftirlit og áhættustýring Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á áhættustýringu og innra eftirliti hjá sjóðnum og skal fylgjast með virkni þess. Stjórnin skal móta og samþykkja áhættustefnu og sjá til þess að virk áhættustýring sé til staðar hjá sjóðnum, sem tekur til allrar starfsemi hans. Áhættustýring skal innihalda skilvirka ferla og vinnulag. Hún þarf einnig að tryggja að framkvæmda- og áhættustjóri fylgist með því að þessir ferlar séu fullnægjandi og verklag sé skilvirkt.

Stjórnin hefur skipað endurskoðunarnefnd í samræmi við ákvæði 108. gr. laga nr. 3/2006. Endurskoðunarnefnd hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðunar og áhættustýringar, eftirlit með endurskoðun ársreiknings, mat á óhæði endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækis og eftirlit með öðrum störfum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis, fyrir sjóðinn. Endurskoðunarnefnd setur fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Endurskoðunarnefnd fundar reglulega með innri endurskoðanda, áhættustjóra og eftir atvikum öðrum starfsmönnum sjóðsins og skilar um það skýrslum til stjórnar.

Auk stjórnendaeftirlits og eftirlits áhættustjóra hefur stjórnin ráðið innri endurskoðanda sem starfar skv. lögum nr. 129/1997 og reglum nr. 687/2001 um endurskoðunardeildir og eftirlitsaðila lífeyrissjóða. Innri endurskoðandi sjóðsins er KPMG. Innri endurskoðandi framkvæmir eftirlitsaðgerðir reglulega og skilar um það skýrslum til stjórnar. Innri endurskoðandi starfar í nánu sambandi við endurskoðunarnefnd og áhættustjóra.

Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri, sem heyrir beint undir framkvæmdastjóra sjóðsins og hefur milliliðalausan aðgang að stjórn. Áhættustjóri hefur umsjón með allri áhættustýringu og innra eftirliti hjá sjóðnum, þ.m.t. áhættuflokkun og skipulagi áhættustýringar og skal sjá til þess að stjórn sjóðsins og endurskoðunarnefnd hafi sem bestar upplýsingar um alla áhættustýringu og áhættustig, miðað við stefnu og samþykkt verklag. Áhættustjóri hefur yfirumsjón með mótun áhættustefnu, áhættustýringarstefnu, eigin áhættumati og gerð áhættuáætlunar í samráði við framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og fjárfestingarráð. Áhættustefna, áhættustýringarstefna, eigið áhættumat og áhættuáætlun skulu lagðar fyrir stjórn til samþykktar.

Lögfræðingur sjóðsins sinnir starfi regluvarðar í samræmi við verklagsreglur sjóðsins um verðbréfaviðskipti og heyrir sem slíkur beint undir stjórn. Öll viðskipti starfsmanna og stjórnar, sem eru tilkynningarskyld, skulu tilkynnt til regluvarðar og hefur hann heimildir til að kalla eftir upplýsingum um viðskipti sjóðsins og úr skattframtölum starfs- og stjórnarmanna. Regluvörður gefur innri endurskoðanda reglulega skýrslu um störf sín, sem síðan eru tilgreind í skýrslu endurskoðanda til endurskoðunarnefndar og stjórnar.

 Fjárfestingarstefna og áhættustefna

Stjórn sjóðsins hefur mótað fjárfestingarstefnu fyrir sjóðinn. Fjárfestingarstefnan lýsir stefnu við fjárfestingar og ávöxtun fjár sjóðfélaga. Þarf hún að uppfylla þær kröfur sem gerðar eru í reglugerð nr. 916/2009 um fjárfestingarstefnu lífeyrissjóða. Fjárfestingarstefna tekur til fjölmargra atriða sem hafa þarf í huga við fjárfestingar. Hún lýsir þeim viðhorfum sem sjóðurinn hefur til fjárfestinga, hvernig fjárfestingarstefna er mótuð, hvert skipulag fjárfestingarstarfseminnar er, hver ávöxtunarmarkmið sjóðsins eru, hvert viðhorf sjóðsins er til áhættu og skilgreinir áhættuþol hans og markmið um áhættutöku. Stefnan skilgreinir í hvaða eignaflokkum sjóðurinn fjárfestir, hvernig eignasöfn eru sett saman, hver lausafjárþörf sjóðsins er til að mæta útgreiðslum, hvaða viðhorf eru til ríkjandi markaðsaðstæðna og hvernig eftirfylgni og upplýsingagjöf er háttað. Nánari upplýsingar um fjárfestingarstefnu Stapa lífeyrissjóðs er að finna á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is.

Stjórn hefur mótað áhættustefnu, áhættustýringarstefnu og sett sjóðnum eftirlits- og hlítingarskrá. Í þessum reglum er að finna lýsingu á skipulagi sjóðsins, eignastýringar og fjárfestingarstarfsemi, eftirlits og hvernig áhættustýringu sjóðsins og innra eftirliti er háttað, þ.m.t. aðgerðum til að tryggja að starfsemi sjóðsins hlíti þeim lögum og reglum sem um hann eru settar. Í áhættustefnu er öllum helstu áhættuþáttum í rekstri sjóðsins lýst, sem og þeim aðferðum sem hann beitir við að bera kennsl á, mæla og stýra þessum áhættuþáttum. Þar er skilgreind dagskrá um hvenær tiltekin aðgerð skuli framkvæmd, hver ber ábyrgð á framkvæmdinni og hver framkvæmir. Stjórn fær regluleg yfirlit og skýrslur um áhættu sjóðsins, niðurstöðu áhættumælinga og framkvæmd áhættustýringar, auk skýrslna um hlítingu við lög, reglur og stefnu, sem gerir henni kleift að hafa eftirlit með og meta árangur af gildandi áhættustefnu og skilvirkni áhættustýringarinnar. Þá framkvæmir Stapi eigið áhættumat í samræmi við ákvæði reglugerðar 590/2017. Nánari upplýsingar um áhættustefnu Stapa lífeyrissjóðs er að finna á heimasíðu sjóðsins www.stapi.is.

 Gildi og samfélagsleg ábyrgð

Markmið og gildi
Sjóðurinn hefur skilgreint markmið um starfsemi sjóðsins gagnvart mismunandi hagsmunahópum og þau gildi sem stjórn og starfsmenn sjóðsins eiga að hafa sem leiðarljós í störfum sínum fyrir lífeyrissjóðinn og sjóðfélaga hans.

Samfélagsleg ábyrgð
Stapi lífeyrissjóður telur að samfélagsleg ábyrgð sé mikilvægur þáttur í góðum stjórnarháttum. Stapi gerir sér grein fyrir því að hann hefur áhrif á kjör sjóðfélaga sinna, hann hefur áhrif á þá aðila sem hann fjárfestir í sem og efnahagsleg og félagsleg áhrif á félagssvæði sínu og nærumhverfi. Stapi hefur samfélagslega ábyrgð að leiðarljósi bæði inn og út á við í störfum sínum og athöfnum í samskiptum sínum við sjóðfélaga, starfsmenn, viðskiptavini, þjónustuaðila og samfélagið í heild. Sjóðurinn hefur mótað sérstaka stefnu sem kölluð er „Leiðbeiningar og stefnumið um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar“ þar sem lýst er eigendastefnu sjóðsins og viðhorfum til stjórnarhátta, umhverfis og félagslegrar ábyrgðar. Þá gerðist Stapi á árinu 2017 stofnaðili að íslenskum samtökum um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar, IcelandSIF.

Samskipti við sjóðfélaga
Sjóðurinn hefur sett sér reglur um samskipti við sjóðfélaga. Sjóðurinn sendir sjóðfélögum yfirlit um réttindi sín tvisvar á ári. Sjóðurinn býður auk þess upp á sjóðfélagavef, þar sem sjóðfélagar geta fengið upplýsingar um lífeyrisréttindi sín hjá sjóðnum auk upplýsinga um iðgjaldaskil og aðgang að rafrænum skjölum, sem þeim tengjast. Einnig er þar að finna reiknivélar, þar sem hægt er að reikna út lífeyri miðað við núverandi og væntanleg réttindi sem og greiðslubyrði lána. Þá heldur sjóðurinn úti öflugri heimasíðu, þar sem finna má margháttaðar upplýsingar um sjóðinn og hagsmuni og réttindi sjóðfélaga, þar á meðal hvernig bera á sig að við að sækja um lífeyri o.fl.

Upplýsingar um stjórnarmenn, endurskoðunarnefnd og framkvæmdastjóra

Stjórn:
Erla Jónsdóttir, fædd 1974. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins. Varamaður frá ársfundi 2014. Tók sæti sem aðalmaður nóvember sama ár, var kjörin í aðalstjórn á ársfundi 2015. Varaformaður stjórnar frá ársfundum 2017 og 2019 og formaður stjórnar frá ársfundi 2018. Erla er óháð Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: B.Sc. í rekstrarfræðum frá Háskólanum á Akureyri
o Starf: Framkvæmdastjóri og eigandi Lausnamið ehf.
o Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður í Landssamtökum lífeyrissjóða, stjórnarmaður í Lausnamiðum ehf.

Huld Aðalbjarnardóttir, fædd 1968. Fulltrúi stéttarfélaga. Kjörin sem aðalmaður á ársfundi 2014.
Formaður stjórnar frá ársfundum 2017 og 2019 og varaformaður stjórnar frá ársfundi 2018. Huld
er óháð Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: B.ed. frá KHÍ, LMI í stjórnun, próf sem viðurkenndur bókari
o Aðalstarf: Skrifstofu- og fjármálastjóri Skrifstofu stéttarfélaganna á Húsavík
o Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður í Þingeyjardeild KEA

Kristín Halldórsdóttir, fædd 1966. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins. Kjörin á ársfundi 2014. Kristín er
óháð Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Diploma í rekstrar- og viðskiptafræði, mjólkurtæknifræðingur,
mjólkurfræðingur
o Starf: Rekstrarstjóri MS á Akureyri
o Önnur trúnaðarstörf: Fulltrúi SA í heilbrigðisnefnd Norðurlands eystra,
nefndarmaður í skólanefnd Verkmenntaskólans á Akureyri og situr í Fagráði
mjólkuriðnaðarins

Oddný María Gunnarsdóttir, stjórnarmaður, fædd 1955. Fulltrúi stéttarfélaga. Kjörin í stjórn á
ársfundi 2019. Oddný María er óháð Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Sveinspróf í pípulögnum, lokapróf á húsasmíðabraut frá FNV
o Aðalstarf: Þjónustufulltrúi hjá Motus ehf.
o Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður og hluthafi Með kaffinu ehf.

Sverrir Mar Albertsson, fæddur 1958. Fulltrúi stéttarfélaga. Kjörinn varamaður á ársfundi 2013.
Tók sæti sem aðalmaður í stjórn á árinu 2014. Kjörinn aðalmaður í stjórn á ársfundi 2015. Sverrir
Mar er óháður Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Stúdent frá Flensborgarskóla, nám í Læknadeild HÍ, fjölmiðlanám í Carleton
University- School of Journalism, nám við HÍ í fjármálastjórn og verkefnastjórnun
o Starf: Framkvæmdastjóri AFLs Starfsgreinafélags
o Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður í Útgáfufélagi Austurlands ehf., stjórnarmaður í
Námsveri ehf. og ýmis nefndarstörf á vegum AFLs, ASÍ og landssambanda ASÍ

Tryggvi Jóhannsson, fæddur 1973. Fulltrúi stéttarfélaga. Kjörinn varamaður á ársfundi 2014 og
aðalmaður á ársfundi 2015. Tryggvi er óháður Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Grunnskólapróf, ýmis starfstengd námskeið
o Starf: Starfsmaður hjá Þrif og ræstivörum
o Önnur trúnaðarstörf: Formaður í stjórn Matvæla- og þjónustudeildar Einingar-Iðju,
stjórnarmaður Einingar-Iðju, situr í trúnaðarráði og í samninganefnd Einingar-Iðju.

Unnar Már Pétursson, stjórnarmaður, fæddur 1965. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins. Kjörinn í
stjórn á ársfundi 2018. Unnar Már er óháður Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Cand oecon frá Háskóla Íslands
o Starf: Fjármálastjóri Ramma hf.
o Önnur trúnaðarstörf: Endurskoðunarnefnd Stapa lífeyrissjóðs, Karlsberg ehf.
framkvæmdastjóri og meðstjórnandi, Marteinn Haraldsson ehf. framkvæmdastjóri,
Primex Medical Investments ehf. framkvæmdastjóri og meðstjórnandi, Primex ehf.
meðstjórnandi, Yummy Yummy ehf. stjórnarmaður og Arctic Seafood ltd.
stjórnarmaður

Valdimar Halldórsson, fæddur 1973. Fulltrúi Samtaka atvinnulífsins. Kjörinn aðalmaður á ársfundi
2017. Valdimar er óháður Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Stúdentspróf frá Framhaldsskólanum á Húsavík, B.A. í hagfræði frá Háskóla
Íslands, M.Sc. í viðskiptafræði frá Háskóla Íslands
o Starf: Framkvæmdastjóri Norðursiglingar hf.
o Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður í Íslenskum

Endurskoðunarnefnd:
Halla Bergþóra Halldórsdóttir, fædd 1966. Halla Bergþóra er óháð Stapa lífeyrissjóði.
o Menntun: Cand oecon frá Háskóla Íslands, sérsvið reikningshald og endurskoðun
o Starf: Sviðsstjóri þjónustu- og fjármálasviðs Norðurorku hf.
o Önnur trúnaðarstörf: Endurskoðunarnefnd Sparisjóðs Þórshafnar 2010-2012,
stjórnarmaður í Ásprent Stíl ehf., varaformaður stjórnar í Netorku hf. og
stjórnarformaður í Vistorku hf.

Unnar Már Pétursson (sjá umfjöllun hér að ofan)

Tryggvi Jóhannsson (sjá umfjöllun hér að ofan)

Framkvæmdastjóri:
Jóhann Steinar Jóhannsson, fæddur 1982.
o Menntun: Stúdent frá Verkmenntaskólanum á Akureyri af viðskipta- og
hagfræðabraut, B.Sc. í viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og M.Sc. í
viðskiptafræði frá háskólanum í Lund í Svíþjóð
Önnur trúnaðarstörf: Stjórnarmaður í Bakkastakk slhf. (stjórnarlaun renna til Stapa
lífeyrissjóðs) og situr í fastanefnd á vegum Landssamtaka lífeyrissjóða um
fjárfestingarumhverfi lífeyrissjóða (ólaunað)