Fara í efni

Áritun óháðra endurskoðenda

Til stjórnar og sjóðfélaga Stapa lífeyrissjóðs

Álit
Við höfum endurskoðað meðfylgjandi ársreikning Stapa lífeyrissjóðs fyrir árið 2019. Ársreikningurinn hefur að geyma yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, yfirlit um sjóðstreymi, yfirlit um tryggingafræðilega stöðu, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar. 

Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af afkomu lífeyrissjóðsins á árinu 2019, efnahag hans 31. desember 2019 og breytingu á handbæru fé á árinu, í samræmi við lög og reglur um ársreikninga lífeyrissjóða.

Grundvöllur fyrir áliti
Endurskoðað var í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt þeim stöðlum er nánar lýst í kaflanum um ábyrgð endurskoðanda hér að neðan. Við erum óháð Stapa lífeyrissjóði í samræmi við alþjóðlegar siðareglur fyrir endurskoðendur og höfum við uppfyllt ákvæði þeirra. Við teljum að við endurskoðunina höfum við aflað nægilegra og viðeigandi gagna til að byggja álit okkar á.

Aðrar upplýsingar
Stjórn og framkvæmdastjóri bera ábyrgð á öðrum upplýsingum. Aðrar upplýsingar innifela skýrslu stjórnar, stjórnháttaryfirlýsingu og viðauka 1 um ófjárhagslega upplýsingagjöf.

Álit okkar á ársreikningnum nær ekki yfir aðrar upplýsingar og við ályktum hvorki um, né veitum staðfestingu á efni þeirra ef frá er talin sú staðfesting varðandi skýrslu stjórnar sem fram kemur hér að neðan.

Í tengslum við endurskoðun okkar berum við ábyrgð á að lesa framangreindar aðrar upplýsingar og skoða hvort þær séu í verulegu ósamræmi við ársreikninginn eða þekkingu okkar sem við höfum aflað við endurskoðunina eða virðast að öðru leyti innifela verulegar skekkjur. Ef við komumst að þeirri niðurstöðu, byggt á þeirri vinnu sem við höfum framkvæmt, að það séu verulegar skekkjur í öðrum upplýsingum ber okkur að skýra frá því. Það er ekkert sem við þurfum að skýra frá hvað þetta varðar.

Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104 gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga staðfestum við samkvæmt okkar bestu vitund að í skýrslu stjórnar sem fylgir ársreikningi þessum eru veittar þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum. 

Ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra á ársreikningnum
Stjórn og framkvæmdastjóri eru ábyrg fyrir gerð og framsetningu ársreikningsins í samræmi við lög um ársreikninga. Stjórn og framkvæmdastjóri eru einnig ábyrg fyrir því innra eftirliti sem nauðsynlegt er varðandi gerð og framsetningu ársreikningsins, þannig að hann sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.

Við gerð ársreikningsins eru stjórn og framkvæmdastjóri ábyrg fyrir því að meta rekstrarhæfi Stapa lífeyrissjóðs. Ef við á, skulu stjórn og framkvæmdastjóri setja fram viðeigandi skýringar um rekstrarhæfi og hvers vegna þau ákváðu að beita forsendunni um rekstrarhæfi við gerð og framsetningu ársreikningsins, nema stjórn og framkvæmdastjóri hafi ákveðið að leysa sjóðinn upp eða hætta starfsemi, eða hafi enga aðra raunhæfa möguleika.

Ábyrgð endurskoðenda á endurskoðun ársreikningsins
Markmið okkar er að afla nægjanlegrar vissu um að ársreikningurinn sé án verulegra annmarka, hvort sem er af völdum sviksemi eða mistaka og að gefa út áritun sem felur í sér álit okkar.
Nægjanlega vissa er þó ekki trygging þess að endurskoðun framkvæmd í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla muni uppgötva allar verulegar skekkjur séu þær til staðar. Skekkjur geta orðið vegna mistaka eða sviksemi og eru álitnar verulegar ef þær gætu haft áhrif á fjárhagslega ákvarðanatöku notenda ársreikningsins, einar og sér eða samanlagðar.

Endurskoðun okkar í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla byggir á faglegri dómgreind og beitum við gagnrýnni hugsun við endurskoðunina. Við framkvæmum einnig eftirfarandi:

• Greinum og metum hættuna á verulegri skekkju í ársreikningnum, hvort sem er vegna mistaka eða sviksemi, hönnum og framkvæmum endurskoðunaraðgerðir til að bregðast við þeim hættum og öflum endurskoðunargagna sem eru nægjanleg og viðeigandi til að byggja álit okkar á. Hættan á að uppgötva ekki verulega skekkju vegna sviksemi er meiri en að uppgötva ekki skekkju vegna mistaka, þar sem sviksemi getur falið í sér samsæri, skjalafals, misvísandi framsetningu ársreiknings, að einhverju sé viljandi sleppt eða að farið sé framhjá innri eftirlitsaðgerðum.

• Öflum skilnings á innra eftirliti, sem snertir endurskoðunina, í þeim tilgangi að hanna viðeigandi endurskoðunaraðgerðir, en ekki í þeim tilgangi að veita álit á virkni innra eftirlits sjóðsins.

• Metum hvort reikningsskilaaðferðir sem notaðar eru, og tengdar skýringar, séu viðeigandi og hvort reikningshaldslegt mat stjórnenda sé raunhæft.

• Ályktum um notkun stjórnenda á forsendunni um rekstrarhæfi og metum á grundvelli endurskoðunarinnar hvort verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi eða hvort aðstæður séu til staðar sem gætu valdið verulegum efasemdum um rekstrarhæfi. Ef við teljum að verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi ber okkur að vekja sérstaka athygli á viðeigandi skýringum ársreikningsins í áritun okkar. Ef slíkar skýringar eru ófullnægjandi þurfum við að víkja frá fyrirvaralausri áritun. Niðurstaða okkar byggir á endurskoðunargögnum sem aflað er fram að dagsetningu áritunar okkar. Engu að síður geta atburðir eða aðstæður í framtíðinni valdið óvissu um rekstrarhæfi sjóðsins.

• Metum í heild sinni hvort ársreikningurinn gefi glögga mynd af undirliggjandi viðskiptum og atburðum, metum framsetningu, uppbyggingu, innihald og þar með talið skýringar við ársreikninginn með tilliti til glöggrar myndar.

Okkur ber skylda til að upplýsa stjórn og endurskoðunarnefnd meðal annars um áætlað umfang og tímasetningu endurskoðunarinnar og veruleg atriði sem komu upp í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka á innra eftirlit sem komu fram í endurskoðuninni, ef við á.

Við höfum einnig lýst því yfir við stjórn og endurskoðunarnefnd að við höfum uppfyllt skyldur siðareglna um óhæði og höfum miðlað til þeirra upplýsingum um tengsl eða önnur atriði sem gætu mögulega haft áhrif á óhæði okkar og þar sem viðeigandi er, hvaða varnir við höfum sett til að tryggja óhæði okkar.

Akureyri, 26, mars 2020

Deloitte ehf.

Aðalsteinn Sigurðsson
endurskoðandi

Hólmgrímur Bjarnason
endurskoðandi

Áritun tryggingastærðfræðings

Til stjórnar og sjóðfélaga Stapa lífeyrissjóðs

Undirritaður hefur metið lífeyrisskuldbindingar Stapa lífeyrissjóðs í árslok 2019. Matið er framkvæmt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 391/1998 um tryggingafræðilegar athuganir á lífeyrissjóðum og forsendur fyrir þeim og leiðbeinandi reglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um tryggingafræðilegt mat á stöðu lífeyrissjóða.

Meðal annars er miðað við lífslíkur sjóðfélaga lífeyrissjóða árin 2014 til 2018 og 3,5% vexti p.a. Fyrir konur er miðað við 130% meðaltals örorkulíkum íslenskra lífeyrissjóða miðað við reynslu áranna 2011-2016 og fyrir karla 120%. Forsendur um lífs- og örorkulíkur eru eftir nýjum reiknigrundvelli Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga frá árinu 2019.

Yfirlit yfir helstu niðurstöður matsins er að finna í yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sem og í skýringu nr. 15. 

Skuldbindingar sjóðsins eru reiknaðar á grundvelli upplýsinga úr iðgjalda- og lífeyrisbókhaldi sjóðsins um áunnin réttindi virkra og óvirkra sjóðfélaga skipt eftir aldri þeirra og lífeyrisgreiðslur til einstakra sjóðfélaga í árslok 2019. Miðað er við réttindaákvæði í samþykktum sjóðsins.

Í matinu eru reiknaðar út áfallnar skuldbindingar vegna þeirra sjóðfélaga, sem þegar eiga réttindi í sjóðnum og áætlaðar framtíðarskuldbindingar vegna þeirra iðgjalda, sem ætla má að virkir sjóðfélagar greiði til sjóðsins þar til þeir hefja töku lífeyris. Þessi áætluðu framtíðariðgjöld svo og áætlaður rekstrarkostnaður og fjármagnsgjöld í framtíðinni eru núvirt miðað við árslok 2019, með sama hætti og skuldbindingar. Þá er í matinu tekið tillit til endurmats á skuldabréfaeign sjóðsins, en hún hefur verið núvirt miðað við sömu ávöxtunarkröfu og skuldbindingarnar eða 3,5%. Ennfremur er bókfært virði markaðseigna fært til meðalmarkaðsverðs síðustu þriggja mánaða ársins.

Niðurstaða athugunarinnar er sú að skuldbindingar Stapa lífeyrissjóðs eru 0,4% umfram eignir að meðtöldu verðmæti framtíðariðgjalda í hlutfalli af skuldbindingum.

Reykjavík, 26. mars 2020

Bjarni Guðmundsson
tryggingastærðfræðingur

Skýrsla stjórnar

Stapi lífeyrissjóður starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur starfsleyfi frá Fjármálaráðuneytinu í samræmi við 52. gr. þeirra laga. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins. Sjóðurinn skiptist í þrjár deildir: tryggingadeild, séreignardeild og tilgreinda séreignardeild.

Helstu upplýsingar um rekstrarár, væntanleg þróun sjóðsins og yfirlýsing um stjórnarhætti
Ávöxtun eigna Stapa árið 2019 var sú besta í sögu sjóðsins í núverandi mynd eða sem nemur 10% raunávöxtun. Allir eignaflokkar skiluðu jákvæðu ávöxtunarframlagi á árinu. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,1%.

Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist á árinu, er neikvæð um 0,4%, en var neikvæð um 1,8% í lok árs 2018. Við mat á skuldbindingum sjóðsins er nú notast við lífslíkur áranna 2014-2018 en fyrra mat byggði á tímabilinu 2010-2014. Breyttar reikniforsendur hafa neikvæð áhrif á tryggingafræðilega stöðu sjóðsins sem nemur 0,6%.

Stjórn gerir ráð fyrir að starfsemi sjóðsins verði með svipuðu sniði á næstu árum. Frá lokum reikningsársins hafa hlutabréf í eignasafni Stapa lækkað töluvert í verði í kjölfar áhrifa Covid-19 veirunnar. Lágt áhættustig sjóðsins og dreifð eignasamsetning hafa dregið úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild. Óúrskurðuð réttindi í réttindakerfi Stapa þróast að mestu í takti við breytingu á eignavísitölu sjóðsins. Því munu breytingar á eignaverði hafa minni áhrif á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar en ella. Gert er ráð fyrir að ávöxtun sjóðsins standi undir vexti skuldbindinga til framtíðar litið og að réttindakerfi sjóðsins tryggi jafnvægi þar á milli.

Stjórn sjóðsins hefur samþykkt sérstaka yfirlýsingu um stjórnarhætti, sem birt er með ársreikningi þessum. Samkvæmt lögum um ársreikninga skulu einingar tengdar almannahagsmunum veita upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif í tengslum við umhverfis‐, félags‐ og starfsmannamál, stefnu í mannréttindamálum, hvernig er spornað við spillingar‐ og mútumálum auk stuttrar lýsingar á viðskiptalíkani og fleira. Gerð er grein fyrir stefnu og árangri félagsins í þessum málum í Viðauka I með ársreikningnum.

Sjóðfélagar og iðgjöld
Á árinu 2019 greiddu 21.939 sjóðfélagar hjá 3.287 launagreiðendum iðgjöld til tryggingadeildar sjóðsins. Iðgjöld ársins námu alls 12.572 millj. kr. Iðgjöld til tryggingadeildar voru kr. 12.162 millj. kr. og hækkuðu um 7,5% frá fyrra ár en iðgjöld til séreignardeildar hækkuðu um 8,3% milli ára og voru 301 millj. kr. Þá námu iðgjöld tilgreindrar séreignardeildar 109 m.kr. á árinu. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum voru 15.086 hjá tryggingadeild, 784 hjá séreignardeild og 346 hjá tilgreindri séreignardeild

Lífeyrisgreiðslur
Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 6.408 millj. kr. og hækkuðu um 12,9% frá fyrra ári. Eftirlaunagreiðslur námu 4.540 millj. kr. örorkulífeyrir nam 1.566 millj. kr., makalífeyrir nam 254 millj. kr. og barnalífeyrir 48 millj. kr. Þá námu lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild 174 millj. kr. og í tilgreindri séreignardeild 1 millj. kr. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.261.

Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður sjóðsins á árinu 2019 var 429 millj. kr. Rekstarkostnaður sem hlutfall af eignum var 0,2%. Stöðugildi á árinu voru 18,5 og námu launagreiðslur 217 millj. kr.

Ávöxtun og eignir
Hrein eign tryggingadeildar til greiðslu lífeyris nam 249.521 millj. kr. og hækkaði um 16% frá fyrra ári. Nafnávöxtun deildarinnar var jákvæð um 12,9% en raunávöxtun nam 10%. Hrein eign séreignardeildar var 6.422 millj. kr. og hækkaði um 16,8% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp þrjú ávöxtunarsöfn, Innlána safnið, Varfærna safnið og Áræðna safnið og nam hrein raunávöxtun safnanna 0,2%, 11,3% og 14,9% á árinu. Hrein eign tilgreindrar séreignardeildar nam 190 m.kr. í lok árs.

Tryggingafræðileg staða
Tryggingafræðileg úttekt hefur verið gerð á stöðu tryggingadeildar sjóðsins í árslok 2019. Tryggingfræðileg afkoma ársins var jákvæð um 5.169 millj. kr. og var tryggingafræðileg staða sjóðsins neikvæð í árslok um 1.636 millj. kr. eða 0,4% af skuldbindingum sjóðsins

Akureyri, 26. mars 2020

Í stjórn
Erla Jónsdóttir
Huld Aðalbjarnardóttir
Kristín Halldórsdóttir
Oddný María Gunnarsdóttir
Sverrir Mar Albertsson
Tryggvi Jóhannsson
Unnar Már Pétursson
Valdimar Halldórsson

Framkvæmdastjóri
Jóhann Steinar Jóhannsson 

Yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris árið 2019

Efnahagsreikningur 31. desember 2019 

Yfirlit um sjóðstreymi ársins 2019

Ófjárhagslegar upplýsingar

Stapi lífeyrissjóður telst til eininga tengdum almannahagsmunum, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga og getur því í skýrslu stjórnar upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif sjóðsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál í samræmi við gr. 66. d sömu laga.

Viðskiptalíkan
Stapi lífeyrissjóður er lífeyrissjóður fyrir launamenn á almennum vinnumarkaði á svæðinu frá Hornafirði til Hrútafjarðar. Hjá sjóðnum starfa 20 starfsmenn á starfsstöðvum á Akureyri og Neskaupstað. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur til þess fullt starfsleyfi. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir. Þannig móttekur sjóðurinn iðgjöld sjóðfélaga, ávaxtar þau og greiðir út eftirlaun, örorku-, maka- og barnalífeyri.

Stefna sjóðsins í samfélagsmálum
Í því skyni að stuðla að góðum stjórnarháttum og m.a. sporna við spillingar- og mútumálum í tengslum við starfsemi sjóðsins er m.a. byggt á eftirfarandi:
• Starfsreglur stjórnar Stapa, samþykktar af stjórn í nóvember 2019
• Verklagsreglur um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna með fjármálagerninga, samþykktar af stjórn í september 2018
• Siðareglur fyrir Stapa lífeyrissjóð, samþykktar af stjórn í nóvember 2019
• Reglur fyrir Fjárfestingarráð Stapa lífeyrissjóð, samþykktar af stjórn í janúar 2020
• Reglur Stapa lífeyrissjóðs um heimildir starfsmanna og áritanir, samþykktar af stjórn í október 2019
• Reglur um upplýsingagjöf til stjórnar, samþykktar af stjórn í nóvember 2017
• Reglur um frávikaskrár, samþykktar af stjórn í febrúar 2009
• Reglur Stapa lífeyrissjóðs um varnir gegn peningaþvætti, samþykktar af stjórn í júní 2017
• Fjárfestingarferill, samþykktur í stjórn í ágúst 2018
• Ferli vegna bókhalds, samþykkt í stjórn í júní 2017
• Ferli við skráningu iðgjalda og greiðslna, samþykkt í stjórn í nóvember 2017
• Verklagsreglur um lykilstarfsmenn, samþykktar í stjórn í september 2012
• Áhættustefna, samþykkt í stjórn í nóvember 2019
• Leiðbeiningar og stefnumið um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar, samþykktar í stjórn í nóvember 2015
• Starfsmannastefna, samþykkt í stjórn í janúar 2018
• Reglur um upplýsingagjöf til sjóðfélaga, samþykktar í stjórn í september 2018

Sjóðurinn er ekki aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investments) en notar m.a. slíkar reglur til að meta hegðun fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í m.t.t. samfélagslegra þátta.

Stapi er stofnaðili að íslenskum samtökum um ábyrgðar fjárfestingar, IcelandSIF, sem stofnuð voru á árinu 2017. Tilgangur samtakanna er að efla þekkingu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga og auka umræður um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Sjóðurinn er einn af 23 stofnaðilum sem tók þátt í stofnun samtakanna en á meðal stofnaðila eru fjármálafyrirtæki, lífeyrissjóðir og tryggingafélög. Stjórn og starfsmenn Stapa eru vörsluaðilar lífeyrissparnaðar sjóðfélaga og ber að standa vörð um hagsmuni þeirra og hafa þá að leiðarljósi í störfum sínum. Í því er meðal annars fólgin sú krafa að sjóðurinn stuðli að því að bestu faglegu viðmið um stjórnarhætti séu í heiðri höfð hjá þeim fyrirtækjum þar sem sjóðurinn fjárfestir eða felur eignastýringu fyrir hönd sjóðsins. Með aðild að IcelandSIF stefnir Stapi að því að verða virkur þátttakandi í umræðu um stjórnarhætti og ábyrgt fyrirsvar.

Í reglum sjóðsins, fjárfestingarstefnu, áhættustefnu, áhættustýringarstefnu og reglubundnum skýrslum til stjórnar sjóðsins er fjallað með skipulegum hætti um ýmsa áhættuþætti í rekstri sjóðsins. Þá inniheldur fjárfestingarstefna sjóðsins vegna ársins 2020 umfjöllun um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sjóðsins.

Starfsmannamál
Stjórn sjóðsins hefur samþykkt starfsmannastefnu fyrir sjóðinn. Þar kemur fram að Stapi leggi áherslu á starfsánægju, gott starfsumhverfi, markvissa fræðslu og þjálfun. Stefnan tiltekur einnig að starfsmenn sjóðsins eru metnir að verðleikum, óháð kynferði, aldri, þjóðerni eða trú. Það er markmið sjóðsins að allir starfsmenn njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri til starfa, launa, umbunar, starfsþjálfunar og aðstöðu.

Stapi leitast við að hafa starfsumhverfi, tæki og aðbúnað með bestum hætti á hverjum tíma og tryggja öryggi starfsfólks í vinnu. Sjóðurinn metur reglulega þörf á endurnýjun búnaðar og aðstöðu starfsfólks. Stefna Stapa er að stuðla að heilsusamlegu líferni starfsfólks, bæði andlegu og líkamlegu og styrkir starfsfólk til líkamsræktar með fjárframlagi.

Í október 2019 framkvæmdi sjóðurinn starfsánægjukönnun til að fylgja eftir framkvæmd starfsmannastefnu og ákvarða áherslur í starfsmannamálum. Stefnt er að því að endurtaka starfsánægjukönnunina með reglulegu millibili til að eiga kost á því að grípa inn í óheillavænlega þróun á upplifun starfsmanna af vinnustað sínum.

Umhverfismál
Stapi hefur tekið í notkun miðlæga aðgangsstýrða prentlausn með það að markmiði að draga úr pappírsnotkun sjóðsins. Þá miðar sjóðurinn að því að koma raftækjum sem ekki eru lengur í notkun sjóðsins í endurnýtingu eða endurvinnslu. Lögð er áhersla á að lágmarka og flokka úrgang sem fellur til í starfsemi sjóðsins.

 

Skýringar

Skoða skýringar með ársreikningi Stapa