Ávöxtun sjóðsins
Árið 2020 verður vafalaust lengi í minnum haft enda atburðarrás þess nokkuð sem enginn sá fyrir. Í upphafi ársins gerði Covid-19 veiran vart við sig og á fyrsta ársfjórðungi var ljóst að skæður heimsfaraldur hafði brotist út. Efnahagslegra áhrifa gætti fyrst hér heima þegar ferðamannaiðnaðurinn lagðist af á nánast nokkrum dögum en hann hefur á undanförnum árum byggst upp sem ein af meginstoðum okkar atvinnulífs og útflutningsverðmæta. Sóttvarnaraðgerðir, óvissa og vangaveltur um þróun bóluefna hafa æ síðan sett svip sinn á hagkerfið. Efnahagslegu áhrifin af heimsfaraldrinum virðist vera mjög misskipt milli atvinnugreina þar sem ákveðinn hluti þjóðarinnar verður fyrir miklum áhrifum meðan aðrir hópar hafa aldrei notið meiri kaupmáttar. Gripið hefur verið til margvíslegra mótvægisaðgerða til að milda höggið og sporna við stigvaxandi atvinnuleysi. Mörg fyrirtæki höfðu styrk til að mæta samdrætti og staða heimilanna hafði styrkst til muna á árunum fyrir heimsfaraldurinn. Vísbendingar benda til þess að viðspyrnan verði kröftug þegar að áhrif heimsfaraldursins þverra.
Ávöxtun eigna sjóðsins var af framangreindum ástæðum mjög sveiflukennd innan ársins. Á fyrsta ársfjórðungi lækkuðu hlutabréf í eignasafni sjóðsins töluvert en lágt áhættustig og dreifð eignasamsetning drógu úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild. Í kjölfar vaxtalækkana og annarra örvandi aðgerða opinberra aðila til að stemma stigu við áhrifum Covid-19 tóku verðbréfamarkaðir við sér á ný og nam raunávöxtun eigna Stapa árið 2020 ríflega 9%. Sú góða ávöxtun kemur í kjölfarið á tæplega 10% raunávöxtun ársins 2019 og hafa undanfarin ár því verið meðal bestu ára sjóðsins hvað varðar ávöxtun. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,5%.
Réttindakerfi Stapa virkar á þann hátt að iðgjaldi sjóðfélaga er varið annars vegar í áfallatryggingar og hins vegar til myndunar réttindasjóðs. Þegar kemur að töku eftirlauna er réttindasjóðnum breytt í ævilangar mánaðarlegar greiðslur skv. töflum í samþykktum sjóðsins. Réttindasjóðurinn ávaxtast eins og hrein ávöxtun eigna sjóðsins. Ávöxtunin er mæld með eignavísitölu Stapa sem hækkaði um 13% á árinu, annað árið í röð. Þetta þýðir að áunninn réttur sjóðfélaga okkar til eftirlauna hækkaði um 13% á árinu.
Hrein eign sjóðsins til greiðslu lífeyris vex áfram hröðum skrefum, bæði vegna hækkandi iðgjalda og góðrar ávöxtunar. Í árslok 2020 nam hún 295.868 milljónum króna og hækkaði um 39.735 milljónir króna á árinu. Hrein eign tryggingadeildar nam 288.345 milljónum króna og hrein eign séreignardeilda 7.523 milljónum.
Áherslur í eignastýringu
Á árinu 2020 undirritaði sjóðurinn undir "Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar" ásamt ríkisstjórn Íslands, bönkum, sparisjóðum, innlánsstofnunum, vátryggingafélögum, öðrum lífeyrissjóðum og fjárfestingarsjóðum. Með undirrituninni skuldbindur Stapi sig til að taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þá skuldbindur sjóðurinn sig skv. viljayfirlýsingunni til að birta stefnu sína um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar og veita upplýsingar um leiðir sínar í þessum málum.
Stapi hefur frá árinu 2015 starfað samkvæmt Leiðbeiningum og stefnumiði um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar sem stjórn sjóðsins hefur samþykkt. Í leiðbeiningunum koma fram upplýsingar um hvernig Stapi metur stjórnarhætti fyrirtækja þar sem sjóðurinn er fjárfestir eða hyggst fjárfesta og leiðsögn um þær kröfur sem hann gerir til viðkomandi fyrirtækja. Á undanförnum misserum hafa svokölluð UFS málefni (umhverfisþættir, félagslegir þættir og stjórnarhættir) fengið meira vægi í eignastýringu sjóðsins. Stjórn stefnir að því að uppfæra stefnu sína sem hluthafi m.t.t. þessa á árinu, skilgreina viðmið og tilgreina opinbera upplýsingagjöf í málaflokknum.
Frá árinu 2018 hefur Stapi gert grein fyrri beitingu atkvæðaréttar sjóðsins á hluthafafundum skráðra innlendra hlutafélaga á heimasíðu sjóðsins. Með þessu frumkvæði vill sjóðurinn sýna í verki ábyrgð gagnvart sjóðfélögum, hlutaðeigandi fyrirtækjum og öðrum hagaðilum og auka gegnsæi í starfsemi sjóðsins. Þá er Stapi stofnaðili að IcelandSIF sem er sjálfstæður umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Tilgangur IcelandSIF er að efla þekkingu og umræðu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Stjórn Stapa hefur sett sjóðnum það markmið til lengri tíma að hlutfall erlendra eigna í eignasafni verði allt að 40%. Hækkandi hlutfall erlendra eigna í safni Stapa er mikilvægt út frá áhættudreifingarsjónarmiðum í ljósi þeirrar miklu samþjöppunaráhættu sem felst í háu hlutfalli innlendar verðbréfaeignar á nokkuð fábrotnum verðbréfamarkaði. Að óbreyttu má búast við að því markmiði verði náð innan fárra ára og því bíður stjórnar það verkefni að móta viðbrögð sjóðsins og áhættuþol.
Lífeyrisbyrði og tryggingafræðileg staða
Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 7.140 milljónum króna og hækkuðu um 11,4% frá fyrra ári. Stærstan hluta lífeyrisgreiðslna má rekja til eftirlauna, eða sem nemur 71%, örorkulífeyrir nam 24% af lífeyrisgreiðslum sjóðsins og barna- og makalífeyrir 5%. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.966 og fjölgaði um 705 frá fyrra ári.
Tryggingafræðileg staða sjóðsins styrktist á árinu, er jákvæð um 1,5%, en var neikvæð um 0,4% í lok árs 2019. Jákvæða tryggingafræðilega afkomu má rekja til góðrar ávöxtunar á sl. ári auk þess sem sem samþykktabreytingar sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins 2020 bættu stöðuna um 2.777 millj.kr.
Störf stjórnar
Á starfsárinu fundaði stjórn Stapa 15 sinnum, þar af einu sinni án starfsmanna sjóðsins. Þá fundaði endurskoðunarnefnd sjóðsins fimm sinnum á árinu, en hún er eina starfandi undirnefnd stjórnar.
Frá árinu 2019 hefur stjórn sjóðsins boðað til fulltrúaráðsfundar sjóðsins tvisvar á ári í samræmi við ákvæði sem komu inn í samþykktir sjóðsins árið 2019. Vegna samkomutakmarkana hafa þrír af fjórum fulltrúaráðsfundum sjóðsins verið haldnir með rafrænum hætti. Rafrænir fundir henta sjóði eins og Stapa mjög vel, þar sem starfssvæðið er afar víðfeðmt. Framkvæmd rafrænna funda hefur heppnast vel og sparað tíma fundarmanna og ferðakostnað. Því er það skoðun stjórnar að stefna að áframhaldandi rafrænum fulltrúaráðsfundum jafnvel þegar að áhrif heimsfaraldursins dvína og samkomutakmörkunum verður aflétt.
Þróun og horfur
Við gerum ráð fyrir að starfsemi sjóðsins verði með svipuðu sniði á næstu árum. Áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 gætir þó enn í daglegum rekstri sjóðsins auk þess að hafa nokkur áhrif á virði eigna sjóðsins. Þegar viðbragðsáætlun sjóðsins vegna heimsfaraldursins er virk starfar hluti starfsmanna Stapa utan starfsstöðvar og aðgengi að skrifstofum sjóðsins er takmarkað. Þannig hefur tekist að halda daglegri starfsemi sjóðsins í fullri virkni við krefjandi aðstæður. Gera má ráð fyrir að þær aðgerðir sem gripið hefur verið til með það að markmiði að auka vægi rafrænna samskipta innan og utan sjóðsins verði þróaðar áfram sem hluti af hefðbundinni starfsemi sjóðsins. Áhrifa heimsfaraldursins mun vafalítið gæta í daglegri starfsemi sjóðsins áfram á árinu 2021 en áhrif hans á eignasafn sjóðsins gætu varað lengur.
Viðbrögð við heimsfaraldrinum sem snerta starfsemi Stapa með beinum hætti hafa verið fjölþætt. Hluti af aðgerðum ríkisstjórnar var að veita almenningi tímabundna heimild til úttektar séreignarsparnaðar fyrir allt að 12 milljónir króna. Frestur til að sækja um úrræðið rann út 1. janúar og barst sjóðnum samtals 124 umsóknir um útgreiðslu 125 m.kr. Þá gerðist Stapi aðili að samkomulagi um greiðslufresti fyrirtækja vegna heimsfaraldursins líkt og aðrir lífeyrissjóðir og fjármálafyrirtæki. Einnig bauð sjóðurinn greiðendum sjóðfélagalána upp á möguleika á allt að 6 mánaða frestun afborgana lánanna vegna tekjumissis vegna heimsfaraldursins en greiðendur af 14 sjóðfélagalánum af tæplega 500 nýttu sér úrræðið. Vanskil iðgjalda hafa ekki hækkað merkjanlega á árinu en hins vegar má glöggt merkja samdrátt iðgjalda frá þeim atvinnugreinum sem verða fyrir beinum og óbeinum áhrifum af sóttvarnaraðgerðum. Áhrifin af framangreindu eru að öllu samanteknu minni en upphaflegt áhættumat gaf til kynna sem endurspeglar vonandi sterka stöðu hagaðila sjóðsins.
Óúrskurðuð réttindi í réttindakerfi Stapa þróast að mestu í takt við breytingu á eignavísitölu sjóðsins. Því munu breytingar á eignaverði hafa minni áhrif á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar en ella. Mat á skuldbindingum sjóðsins byggir á spá um lífslíkur sjóðfélaga, sem felur í sér mikla óvissu. Meðalævilengd Íslendinga hefur verið að lengjast og er óvarlegt annað en að búast við að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Miðað við óbreyttan lífeyrisaldur og -réttindi hefði slík þróun neikvæð áhrif á getu sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum til lengri tíma þar sem sjóðfélagar njóta við þær aðstæður að jafnaði greiðslna í lengri tíma en útreikningar gerðu ráð fyrir. Því er nauðsynlegt að réttindakerfi sjóðsins byggi á uppfærðum og framsýnum lýðfræðilegum forsendum.
Stjórnvöld hafa lýst yfir vilja sínum til að framkvæma heildarendurskoðun á lífeyrismálum hér á landi með útgáfu svokallaðrar grænbókar. Ég tel að það sé tímabært að ráðast í slíka úttekt og móta í kjölfarið stefnu t.a.m. um samspil almannatrygginga og greiðslna úr lífeyrissjóðum, aðkomu lífeyrissjóða að áfallatryggingum og nægjanleika lífeyrissparnaðar m.v. hækkandi lífaldur o.s.frv. Framsækið réttindakerfi Stapa sem sjóðurinn tók upp árið 2016 gæti verið sniðmát fyrir einfaldað lífeyriskerfi og aukið gagnsæi og mun sjóðurinn koma því á framfæri við vinnslu grænbókarinnar.
Árið 2020 var sjóðnum hagfellt hvað varðar ávöxtun en fól í sér miklar áskoranir hvað varðar daglegan rekstur. Á undanförnum árum hafa verið tekin markviss skref til að styrkja innviði sjóðsins á öllum sviðum sem hafa eflt getu hans til að takast á við atburði á borð við heimsfaraldurinn. Á næstu árum stígur sjóðurinn enn stærri skref inn í framtíðina með aukinni sjálfvirknivæðingu ferla og rafrænum lausnum sem eykur öryggi og bætir þjónustu við hagaðila. Umbótaferlinu lýkur því aldrei enda hefur sjóðurinn metnað til að vera í fremstu röð lífeyrissjóða hvað varðar þjónustu og öryggi.
Að því sögðu vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu sem og starfsfólki Stapa fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.
Erla Jónsdóttir, stjórnarformaður