ÁRSREIKNINGUR
Áritun óháðs endurskoðanda
Til stjórnar og sjóðfélaga Stapa lífeyrissjóðs
Áritun um endurskoðun ársreikningsins
Álit
Við höfum endurskoðað ársreikning Stapa lífeyrissjóðs („sjóðinn“) fyrir árið 2020. Ársreikningurinn hefur að geyma yfirlit yfir breytingar á hreinni eign til greiðslu lífeyris, efnahagsreikning, yfirlit um sjóðstreymi, yfirlit um tryggingafræðilega stöðu, upplýsingar um mikilvægar reikningsskilaaðferðir og aðrar skýringar.
Það er álit okkar að ársreikningurinn gefi glögga mynd af fjárhagsstöðu sjóðsins 31. desember 2020 og afkomu hans og breytingu á handbæru fé á árinu 2020, í samræmi við lög um ársreikninga og reglur Fjármálaeftirlitsins um ársreikninga lífeyrissjóða.
Álitið er í samræmi við skýrslu okkar til endurskoðunarnefndar og stjórnar.
Grundvöllur álits
Við endurskoðuðum í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla. Ábyrgð okkar samkvæmt stöðlunum er lýst frekar í kaflanum Ábyrgð endurskoðanda á endurskoðun ársreikningsins í árituninni. Við erum óháð sjóðnum í samræmi við gildandi siðareglur fyrir endurskoðendur. Við teljum að við höfum aflað nægilegra og viðeigandi endurskoðunargagna til að byggja álit okkar á.
Samkvæmt bestu vitund okkar og skilningi lýsum við yfir að við höfum ekki veitt neina óheimila þjónustu samkvæmt 1. mgr. 5. gr. reglugerðar Evrópuþingsins og ráðsins nr. 537/2014 og við erum óháð sjóðnum við endurskoðunina.
Við vorum kjörin endurskoðendur sjóðsins á ársfundi hans, 30. júní 2020.
Samanburðarfjárhæðir
Ársreikningur sjóðsins 31. desember 2019 var endurskoðaður af öðrum endurskoðanda. Áritunin er dagsett 26. mars 2020 og er án fyrirvara.
Lykilþættir endurskoðunar
Lykilþættir endurskoðunar eru þeir þættir, sem samkvæmt faglegu mati okkar, höfðu mest vægi við endurskoðun ársreikningsins. Við gefum ekki sérstakt álit á einstökum lykilþáttum en tókum á þeim við endurskoðun á ársreikningnum í heild og við ákvörðun um álit okkar á honum.
Lykilþáttur | Viðbrögð við endurskoðuninni |
Tilvist og mat fjárfestinga Meðal fjárfestinga eru hlutabréf, hlutdeildarskírteini, skuldabréf, bundnar bankainnstæður og afleiður. Sjóðurinn setur sér fjárfestingastefnu þar sem meðal annars er fjallað um samsetningu verðbréfa og vikmörk einstakra eignaflokka. Fjárfestingarnar eru að jafnaði í vörslu banka eða fjármálafyrirtækis. Þar sem fjárfestingar eru verulegur hluti af eignum sjóðsins þá er það lykilþáttur í endurskoðun okkar að staðfesta að fjárfestingarnar séu til og í eigu sjóðsins. Fjárfestingarnar eru ýmist færðar á gangvirði, upphaflegri kaupkröfu eða samkvæmt virðisaðferð, þar sem breytur byggja á markaðsupplýsingum, ýmist beint eða óbeint og á mati stjórnenda. Vegna umfangs og mikilvægis fjárfestinga og að hluti þeirra er færður á virðismati sem byggir meðal annars á mati stjórnenda þá er tilvist og mat þeirra lykilþáttur í endurskoðuninni. |
|
Tilvist og mat fjárfestinga Meðal fjárfestinga eru hlutabréf, hlutdeildarskírteini, skuldabréf, bundnar bankainnstæður og afleiður. Sjóðurinn setur sér fjárfestingastefnu þar sem meðal annars er fjallað um samsetningu verðbréfa og vikmörk einstakra eignaflokka. Fjárfestingarnar eru að jafnaði í vörslu banka eða fjármálafyrirtækis. Þar sem fjárfestingar eru verulegur hluti af eignum sjóðsins þá er það lykilþáttur í endurskoðun okkar að staðfesta að fjárfestingarnar séu til og í eigu sjóðsins. Fjárfestingarnar eru ýmist færðar á gangvirði, upphaflegri kaupkröfu eða samkvæmt virðisaðferð, þar sem breytur byggja á markaðsupplýsingum, ýmist beint eða óbeint og á mati stjórnenda. Vegna umfangs og mikilvægis fjárfestinga og að hluti þeirra er færður á virðismati sem byggir meðal annars á mati stjórnenda þá er tilvist og mat þeirra lykilþáttur í endurskoðuninni. |
|
Ábyrgð stjórnar og framkvæmdastjóra á ársreikningnum
Stjórn og framkvæmdastjóri eru ábyrg fyrir gerð og glöggri framsetningu ársreikningsins í samræmi við lög um ársreikninga og fyrir því innra eftirliti sem þau telja nauðsynlegt til að gera þeim kleift að setja fram ársreikning sem er án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka.
Við gerð ársreikningsins ber stjórn og framkvæmdastjóra að leggja mat á rekstarhæfi sjóðsins og upplýsa, eftir því sem við á, um þætti er varða rekstrarhæfi og miða grundvöll reikningsskilanna við áframhaldandi rekstrarhæfi, nema þau ætli annað hvort að leysa sjóðinn upp eða hætta starfsemi hans, eða hafa engan annan raunhæfan kost en að gera það.
Stjórn og framkvæmdastjóri skulu hafa eftirlit með gerð og framsetningu ársreikningsins.
Ábyrgð endurskoðanda á endurskoðun ársreikningsins
Markmið okkar eru að öðlast hæfilega vissu um hvort ársreikningurinn í heild sé án verulegra annmarka, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka, og að gefa út áritun endurskoðanda sem inniheldur álit okkar. Í hæfilegri vissu felst áreiðanleiki en ekki trygging fyrir því að endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla muni alltaf leiða í ljós verulega annmarka ef þeir eru fyrir hendi. Annmarkar geta komið fram vegna sviksemi eða mistaka og eru taldir verulegir ef þeir einir og sér eða samanlagt gætu haft áhrif á efnahagslegar ákvarðanir sem notendur ársreikningsins taka á grundvelli hans.
Við endurskoðun í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla beitum við ávallt faglegri dómgreind og viðhöfum faglega gagnrýni. Að auki:
Endurskoðun okkar í samræmi við alþjóðlega endurskoðunarstaðla byggir á faglegri dómgreind og beitum við gagnrýnni hugsun við endurskoðunina. Við framkvæmum einnig eftirfarandi:
• Greinum við og metum hættu á verulegri skekkju í ársreikningnum, hvort sem er vegna sviksemi eða mistaka, skipuleggjum og framkvæmum endurskoðunaraðgerðir til að bregðast við þeirri hættu og öflum endurskoðunargagna sem eru nægjanleg og viðeigandi til að byggja álit okkar á. Hættan á að uppgötva ekki verulega skekkju vegna sviksemi er meiri en að uppgötva ekki skekkju vegna mistaka, þar sem sviksemi getur falið í sér samsæri, fölsun, að einhverju sé viljandi sleppt, villandi framsetningu eða að farið sé framhjá innra eftirliti.
• Öflum við skilnings á innra eftirliti, sem varðar endurskoðunina, til að skipuleggja viðeigandi endurskoðunaraðgerðir, en ekki til að veita álit á virkni innra eftirlits sjóðsins.
• Metum við hvort reikningsskilaaðferðir og reikningshaldslegt mat stjórnenda og tengdar skýringar séu viðeigandi.
• Ályktum við um hvort notkun stjórnar og framkvæmdastjóra á forsendu reikningsskilanna um rekstrarhæfi sé viðeigandi og metum, á grundvelli endurskoðunarinnar, hvort aðstæður séu til staðar sem valdið gætu verulegum vafa um rekstrarhæfi sjóðsins. Ef við teljum að verulegur vafi leiki á rekstrarhæfi ber okkur, í áritun okkar, að vekja sérstaka athygli á viðeigandi skýringum ársreikningsins eða, ef slíkar skýringar eru ófullnægjandi, að víkja frá fyrirvaralausri áritun. Niðurstaða okkar byggir á endurskoðunargögnum sem aflað er fram að dagsetningu áritunar okkar. Samt sem áður geta atburðir eða aðstæður í framtíðinni gert sjóðinn órekstrarhæfan.
• Metum við framsetningu, uppbyggingu og innihald ársreikningsins í heild, að meðtöldum skýringum, og hvort ársreikningurinn gefi glögga mynd af undirliggjandi viðskiptum og atburðum.
Við upplýsum stjórn og endurskoðunarnefnd meðal annars um áætlað umfang og tímasetningar endurskoðunarinnar og veruleg atriði sem upp kunna að koma í endurskoðun okkar, þar á meðal verulega annmarka á innra eftirliti.
Af þeim atriðum sem við höfum upplýst stjórn og endurskoðunarnefnd um, leggjum við mat á hvaða þættir höfðu mesta þýðingu við endurskoðun ársreikningsins og eru því lykilþættir endurskoðunarinnar. Við lýsum þessum þáttum í áritun okkar nema lög og reglur útiloki að upplýst sé um þá eða, við einstakar mjög sjaldgæfar kringumstæður, þegar við metum að ekki skuli upplýsa um lykilþátt þar sem neikvæðar afleiðingar þess eru taldar vega þyngra en almennir hagsmunir af birtingu slíkra upplýsinga.
Staðfesting vegna annarra ákvæða laga
Í samræmi við ákvæði 2. mgr. 104 gr. laga nr. 3/2006 um ársreikninga staðfestum við samkvæmt okkar bestu vitund að í skýrslu stjórnar sem fylgir þessum ársreikningi eru veittar þær upplýsingar sem þar ber að veita í samræmi við lög um ársreikninga og koma ekki fram í skýringum.
Hrafnhildur Helgadóttir, endurskoðandi, ber ábyrgð á endurskoðun ársreikningsins og þessari áritun.
Reykjavík, 30. mars 2021
KPMG ehf.
Áritun tryggingastærðfræðings
Til stjórnar og sjóðfélaga Stapa lífeyrissjóðs
Undirritaður hefur metið lífeyrisskuldbindingar Stapa lífeyrissjóðs í árslok 2020. Matið er framkvæmt í samræmi við ákvæði reglugerðar nr. 391/1998 um tryggingafræðilegar athuganir á lífeyrissjóðum og forsendum fyrir þeim og leiðbeinandi reglur Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga um tryggingafræðilegt mat á stöðu lífeyrissjóða.
Meðal annars er miðað við lífslíkur sjóðfélaga lífeyrissjóða árin 2014 til 2018 og 3,5% vexti p.a. Við mat á örorkulíkum er byggt á meðaltals örorkulíkum íslenskra lífeyrissjóða miðað við reynslu áranna 2011-2016 aðlagað að reynslu Stapa lífeyrissjóðs. Þannig er notast við 40% álag hjá körlum og ekkert álag hjá konum. Forsendur um lífs- og örorkulíkur eru eftir nýjum reiknigrundvelli Félags íslenskra tryggingastærðfræðinga frá árinu 2019.
Yfirlit yfir helstu niðurstöður matsins er að finna í yfirliti um tryggingafræðilega stöðu sem og í skýringu nr. 14.
Skuldbindingar sjóðsins eru reiknaðar á grundvelli upplýsinga úr iðgjalda- og lífeyrisbókhaldi sjóðsins um áunnin réttindi virkra og óvirkra sjóðfélaga skipt eftir aldri þeirra og lífeyrisgreiðslur til einstakra sjóðfélaga í árslok 2020. Miðað er við réttindaákvæði í samþykktum sjóðsins.
Í matinu eru reiknaðar út áfallnar skuldbindingar vegna þeirra sjóðfélaga, sem þegar eiga réttindi í sjóðnum og áætlaðar framtíðarskuldbindingar vegna þeirra iðgjalda, sem ætla má að virkir sjóðfélagar greiði til sjóðsins þar til þeir hefja töku lífeyris. Þessi áætluðu framtíðariðgjöld svo og áætlaður rekstrarkostnaður og fjármagnsgjöld í framtíðinni eru núvirt miðað við árslok 2020, með sama hætti og skuldbindingar. Þá er í matinu tekið tillit til endurmats á skuldabréfaeign sjóðsins, en hún hefur verið núvirt miðað við sömu ávöxtunarkröfu og skuldbindingarnar eða 3,5%. Ennfremur er bókfært virði markaðseigna fært til meðalmarkaðsverðs síðustu þriggja mánaða ársins.
Niðurstaða athugunarinnar er sú að eignir Stapa lífeyrissjóðs eru 1,5% umfram skuldbindingar að meðtöldu verðmæti framtíðariðgjalda í hlutfalli af skuldbindingum.
Reykjavík, 30. mars 2021
Bjarni Guðmundsson
tryggingastærðfræðingur
Skýrsla stjórnar
Stapi lífeyrissjóður starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur starfsleyfi frá Fjármálaráðuneytinu í samræmi við 52. gr. þeirra laga. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir sjóðsins. Sjóðurinn skiptist í þrjár deildir: tryggingadeild, séreignardeild og tilgreinda séreignardeild.
Helstu upplýsingar um rekstrarár, væntanleg þróun sjóðsins og yfirlýsing um stjórnarhætti
Ávöxtun eigna sjóðsins var mjög sveiflukennd innan ársins. Á fyrsta ársfjórðungi lækkuðu hlutabréf í eignasafni sjóðsins töluvert vegna áhrifa heimsfaraldurs Covid-19. Lágt áhættustig sjóðsins og dreifð eignasamsetning drógu úr áhrifum þessa á eignasafnið í heild. Í kjölfar vaxtalækkana og annarra örvandi aðgerða opinberra aðila til að stemma stigu við áhrifum Covid-19 tóku verðbréfamarkaðir við sér á ný og nam raunávöxtun eigna Stapa árið 2020 ríflega 9%. Sú góða ávöxtun kemur í kjölfarið á tæplega 10% raunávöxtun ársins 2019 og hafa undanfarin ár því verið meðal bestu ára sjóðsins hvað varðar ávöxtun. Ávöxtunarmarkmið sjóðsins er 3,5% raunávöxtun en meðalraunávöxtun undanfarinna 10 ára nemur 4,5%.
Stjórn gerir ráð fyrir að starfsemi sjóðsins verði með svipuðu sniði á næstu árum. Áhrifa heimsfaraldurs Covid-19 gætir þó enn í daglegum rekstri sjóðsins auk þess að hafa nokkur áhrif á virði eigna sjóðsins. Þegar viðbragðsáætlun sjóðsins vegna heimsfaraldursins er virk starfar hluti starfsmanna Stapa utan starfsstöðvar og aðgengi að skrifstofum sjóðsins er takmarkað. Þannig hefur tekist að halda daglegri starfsemi sjóðsins í fullri virkni við krefjandi aðstæður. Stjórn gerir ráð fyrir að áhrifa heimsfaraldursins á daglega starfsemi sjóðsins gæti áfram á næsta ári en áhrif hans á eignasafn sjóðsins gætu varað lengur.
Óúrskurðuð réttindi í réttindakerfi Stapa þróast að mestu í takti við breytingu á eignavísitölu sjóðsins. Því munu breytingar á eignaverði hafa minni áhrif á getu sjóðsins til að standa við skuldbindingar sínar en ella. Mat á skuldbindingum sjóðsins byggir á spá um lífslíkur sjóðfélaga, sem felur í sér mikla óvissu. Meðalævilengd Íslendinga hefur verið að lengjast og er óvarlegt annað en að búast við að sú þróun haldi áfram á komandi árum. Miðað við óbreyttan lífeyrisaldur og -réttindi hefði slík þróun neikvæð áhrif á getu sjóðsins til að standa undir skuldbindingum sínum til lengri tíma þar sem sjóðfélagar njóta við þær aðstæður að jafnaði greiðslna í lengri tíma en útreikningar gerðu ráð fyrir. Því er nauðsynlegt að réttindakerfi sjóðsins byggi á uppfærðum og framsýnum lýðfræðilegum forsendum.
Sjóðfélagar og iðgjöld
Á árinu 2020 greiddu 20.628 sjóðfélagar hjá 3.326 launagreiðendum iðgjöld til tryggingadeildar sjóðsins. Iðgjöld ársins námu alls 12.915 millj. kr. Iðgjöld til tryggingadeildar voru kr. 12.468 millj. kr. og hækkuðu um 2,5% frá fyrra ár en iðgjöld til séreignardeildar hækkuðu um 10,8% milli ára og voru 334 millj. kr. Þá námu iðgjöld tilgreindrar séreignardeildar 113 m.kr. á árinu. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem að jafnaði greiða iðgjöld til sjóðsins með reglubundnum hætti í mánuði hverjum voru 14.654 hjá tryggingadeild, 783 hjá séreignardeild og 370 hjá tilgreindri séreignardeild.
Lífeyrisgreiðslur
Heildarlífeyrisgreiðslur tryggingadeildar sjóðsins á árinu námu 7.140 millj. kr. og hækkuðu um 11,4% frá fyrra ári. Eftirlaunagreiðslur námu 5.091 millj. kr. örorkulífeyrir nam 1.736 millj. kr., makalífeyrir nam 264 millj. kr. og barnalífeyrir 48 millj. kr. Þá námu lífeyrisgreiðslur úr séreignardeild 276 millj. kr. og í tilgreindri séreignardeild 1,6 millj. kr. Lífeyrisþegar í árslok voru 10.966 í tryggingadeild.
Á árinu samþykkti Alþingi tímabundna heimild til sérstakrar útgreiðslu séreignarsparnaðar fyrir allt að 12 millj. kr. á einstakling. Umsóknartímabilið var frá 1. apríl 2020 til 1. janúar 2021. Samtals bárust Stapa umsóknir frá 124 sjóðfélögum um útgreiðslu samtals 125 millj. kr. eða sem nemur innan við 2% af heildareignum séreignardeilda sjóðsins.
Rekstrarkostnaður
Rekstrarkostnaður sjóðsins á árinu 2020 var 465 millj. kr. Rekstarkostnaður sem hlutfall af eignum var 0,2%. Stöðugildi á árinu voru 19,3 og námu launagreiðslur 233 millj. kr.
Ávöxtun og eignir
Hrein eign tryggingadeildar til greiðslu lífeyris nam 288.345 millj. kr. og hækkaði um 15,6% frá fyrra ári. Nafnávöxtun deildarinnar var jákvæð um 13,1% en raunávöxtun nam 9,2%. Hrein eign séreignardeildar var 7.204 millj. kr. og hækkaði um 12,2% frá fyrra ári. Séreignardeildin býður upp þrjú ávöxtunarsöfn, Innlána safnið, Varfærna safnið og Áræðna safnið og nam hrein raunávöxtun safnanna -3,4%, 10,5% og 8,1% á árinu. Hrein eign tilgreindrar séreignardeildar nam 319 m.kr. í lok árs.
Tryggingafræðileg staða
Tryggingafræðileg úttekt hefur verið gerð á stöðu tryggingadeildar sjóðsins í árslok 2020. Tryggingfræðileg afkoma ársins var jákvæð um 8.068 millj. kr. og var tryggingafræðileg staða sjóðsins jákvæð í árslok um 6.432 millj. kr. eða 1,5% af skuldbindingum sjóðsins. Jákvæða tryggingafræðilega afkomu má rekja til góðrar ávöxtunar sjóðsins á sl. ári auk þess sem samþykktarbreytingar sem samþykktar voru á ársfundi sjóðsins 2020 bættu stöðuna um 2.777 millj. kr.
Stjórnarhættir
Góðir stjórnarhættir eru að mati Stapa lífeyrissjóðs forsenda þess að starfsemi sjóðsins sé árangursrík og að sjóðurinn nái markmiðum sínum. Með góðum stjórnarháttum vill sjóðurinn leggja grunn að vönduðum og faglegum vinnubrögðum og góðum og uppbyggilegum samskiptum við sjóðfélaga og launagreiðendur sem greiða iðgjöld til sjóðsins. Þannig er stuðlað að trausti í samskiptum stjórnenda og starfsmanna sjóðsins við sjóðfélaga, launagreiðendur, viðskiptamenn og aðra þá sem samskipti eiga við sjóðinn. Hluti af góðum stjórnarháttum er að stefna að því að þjónusta sjóðsins sé ávallt til fyrirmyndar, hann ráði yfir öflugri upplýsingatækni og stuðli að gagnsæi í starfsemi sinni með því að veita góðar og áreiðanlegar upplýsingar.
Við mótun stjórnarhátta hafa stjórnendur og stjórn sjóðsins haft til hliðsjónar almennt viðurkennd sjónarmið og leiðbeiningar um góða stjórnarhætti fyrirtækja.
Stjórn sjóðsins er kjörin á ársfundi hans og er hún skipuð átta einstaklingum og skulu kynjahlutföll vera jöfn. Kjörnir eru fjórir varamenn og gilda sömu reglur um þá. Stjórnin skipar endurskoðunarnefnd, sem í eiga sæti þrír einstaklingar, og regluvörð.
Samkvæmt lögum ber stjórn Stapa lífeyrissjóðs ábyrgð á að starfsemi sjóðsins sé í samræmi við lög, reglugerðir og samþykktir sjóðsins. Stjórn sjóðsins skal einnig hafa með höndum almennt eftirlit með rekstri, bókhaldi og ráðstöfun eigna sjóðsins. Hún skal móta fjárfestingarstefnu, móta innra eftirlit, skjalfesta eftirlitsferla og móta eftirlitskerfi sem gera sjóðnum kleift að greina, vakta, meta og stýra áhættu í starfsemi sjóðsins. Framkvæmdastjóri annast daglegan rekstur sjóðsins og skal hann fara eftir þeirri stefnu og fyrirmælum sem stjórn sjóðsins hefur gefið. Ráðstafanir sem eru óvenjulegar eða mikilsháttar getur framkvæmdastjóri aðeins gert samkvæmt heimild frá stjórn sjóðsins. Hlutverk stjórnar er að kynna sér, gera sér grein fyrir og móta stefnu um þá áhættu sem fylgir starfsemi sjóðsins, þ.m.t. að setja henni ásættanleg mörk.
Stjórn sjóðsins ber ábyrgð á áhættustýringu og innra eftirliti hjá sjóðnum og skal fylgjast með virkni þess. Stjórnin skal móta og samþykkja áhættustefnu og sjá til þess að virk áhættustýring sé til staðar hjá sjóðnum, sem tekur til allrar starfsemi hans. Áhættustýring skal innihalda skilvirka ferla og vinnulag. Hún þarf einnig að tryggja að framkvæmda- og áhættustjóri fylgist með því að þessir ferlar séu fullnægjandi og verklag sé skilvirkt.
Stjórnin hefur skipað endurskoðunarnefnd í samræmi við ákvæði 108. gr. laga nr. 3/2006. Endurskoðunarnefnd hefur eftirlit með vinnuferli við gerð reikningsskila, fyrirkomulagi og virkni innra eftirlits, innri endurskoðunar og áhættustýringar, eftirlit með endurskoðun ársreiknings, mat á óhæði endurskoðenda og endurskoðunarfyrirtækis og eftirlit með öðrum störfum endurskoðenda eða endurskoðunarfyrirtækis, fyrir sjóðinn. Endurskoðunarnefnd setur fram tillögur til stjórnar um val á endurskoðanda eða endurskoðunarfyrirtæki. Endurskoðunarnefnd fundar reglulega með innri endurskoðanda, áhættustjóra og eftir atvikum öðrum starfsmönnum sjóðsins og skilar um það skýrslum til stjórnar.
Auk stjórnendaeftirlits og eftirlits áhættustjóra hefur stjórnin ráðið innri endurskoðanda sem starfar skv. lögum nr. 129/1997 og reglum nr. 687/2001 um endurskoðunardeildir og eftirlitsaðila lífeyrissjóða. Innri endurskoðandi sjóðsins er PwC. Innri endurskoðandi framkvæmir eftirlitsaðgerðir reglulega og skilar um það skýrslum til stjórnar. Innri endurskoðandi starfar í nánu sambandi við endurskoðunarnefnd og áhættustjóra.
Hjá sjóðnum starfar áhættustjóri, sem heyrir beint undir framkvæmdastjóra sjóðsins og hefur milliliðalausan aðgang að stjórn. Áhættustjóri hefur umsjón með allri áhættustýringu og innra eftirliti hjá sjóðnum, þ.m.t. áhættuflokkun og skipulagi áhættustýringar og skal sjá til þess að stjórn sjóðsins og endurskoðunarnefnd hafi sem bestar upplýsingar um alla áhættustýringu og áhættustig, miðað við stefnu og samþykkt verklag. Áhættustjóri hefur yfirumsjón með mótun áhættustefnu, áhættustýringarstefnu, eigin áhættumati og gerð áhættuáætlunar í samráði við framkvæmdastjóra, skrifstofustjóra og fjárfestingarráð. Áhættustefna, áhættustýringarstefna og eigið áhættumat er lagt fyrir stjórn til samþykktar.
Lögfræðingur sjóðsins sinnir starfi regluvarðar í samræmi við verklagsreglur sjóðsins um verðbréfaviðskipti og heyrir sem slíkur beint undir stjórn. Öll viðskipti starfsmanna og stjórnar, sem eru tilkynningarskyld, skulu tilkynnt til regluvarðar og hefur hann heimildir til að kalla eftir upplýsingum um viðskipti sjóðsins og úr skattframtölum starfs- og stjórnarmanna. Regluvörður gefur innri endurskoðanda reglulega skýrslu um störf sín, sem síðan eru tilgreind í skýrslu endurskoðanda til endurskoðunarnefndar og stjórnar.
Stjórnarháttayfirlýsingin fyrir árið 2020 er birt í heild sinni í sérstökum kafla í ársreikningi þessum.
Ófjárhagsleg upplýsingagjöf
Stapi lífeyrissjóður telst til eininga tengdum almannahagsmunum, sbr. lög nr. 3/2006 um ársreikninga og getur því í skýrslu stjórnar upplýsinga sem nauðsynlegar eru til að leggja mat á þróun, umfang, stöðu og áhrif sjóðsins í tengslum við umhverfis-, félags- og starfsmannamál í samræmi við gr. 66. d sömu laga. Jafnframt er gert grein fyrir stefnu sjóðsins í mannréttindamálum og hvernig félagið spornar við spillingar- og mútumálum.
Viðskiptalíkan
Stapi lífeyrissjóður er lífeyrissjóður fyrir launamenn á almennum vinnumarkaði á svæðinu frá Hornafirði til Hrútafjarðar. Hjá sjóðnum starfa 20 starfsmenn á starfsstöðvum á Akureyri og í Neskaupstað. Sjóðurinn starfar á grundvelli laga nr. 129/1997 um skyldutryggingu lífeyrisréttinda og starfsemi lífeyrissjóða og hefur til þess fullt starfsleyfi. Hlutverk sjóðsins er að tryggja sjóðfélögum, eftirlifandi mökum þeirra og börnum lífeyri í samræmi við samþykktir. Þannig móttekur sjóðurinn iðgjöld sjóðfélaga, ávaxtar þau og greiðir út eftirlaun, örorku-, maka- og barnalífeyri.
Stefna í samfélagsmálum
Áhrif og ábyrgð sjóðsins í samfélagsmálum birtist í tveimur meginþáttum í starfsemi hans. Annars vegar er um að ræða ábyrgð sjóðsins á að greiða sjóðfélögum sínum lífeyri og hins vegar í fjárfestingastarfsemi hans. Hlutverki sínu við að greiða sjóðfélögum lífeyri sinnir sjóðurinn skv. samþykktum sjóðsins, siðareglum og öðrum skjalfestum reglum sjóðsins. Í tilviki fjárfestingarstarfsemi sjóðsins tilgreinir árlega fjárfestingarstefna sjóðsins markmið og afmarkanir fjárfestingarstefnu. Auk þess fjallar fjárfestingarstefna sjóðsins um siðferðisleg viðmið við fjárfestingar sjóðsins. Þá starfar sjóðurinn samkvæmt Leiðbeiningum og stefnumiði um stjórnarhætti, fyrirsvar og félagslega ábyrgar fjárfestingar sem tilgreina viðmið og væntingar sjóðsins til fyrirtækja í eignsafni hans og eignastýranda.
Stapi lífeyrissjóður var stofnaðili að IcelandSIF sem er sjálfstæður umræðuvettvangur fyrir ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar. Tilgangur IcelandSIF er að efla þekkingu og umræðu fjárfesta á aðferðafræði sjálfbærra og ábyrgra fjárfestinga.
Á árinu 2020 undirritaði sjóðurinn undir "Viljayfirlýsingu um fjárfestingar í þágu sjálfbærrar uppbyggingar" ásamt ríkisstjórn Íslands, bönkum, sparisjóðum, innlánsstofnunum, vátryggingafélögum, öðrum lífeyrissjóðum og fjárfestingarsjóðum. Með undirrituninni skuldbindur Stapi sig til að taka tillit til alþjóðlegra skuldbindinga Íslands og þeirra viðmiða sem íslensk stjórnvöld hafa sett sér. Þá skuldbindur sjóðurinn sig skv. viljayfirlýsingunni til að birta stefnu sína um ábyrgar og sjálfbærar fjárfestingar og veita upplýsingar um leiðir sínar í þessum málum.
Sjóðurinn er ekki aðili að reglum Sameinuðu þjóðanna um ábyrgar fjárfestingar (e. UN Principles for Responsible Investments) en notar m.a. slíkar reglur til að meta hegðun fyrirtækja sem sjóðurinn fjárfestir í m.t.t. samfélagslegra þátta. Í fjárfestingarstefnu sjóðsins vegna ársins 2021 er umfjöllun um siðferðisleg viðmið í fjárfestingum sjóðsins.
Stefna í starfsmannamálum
tjórn Stapa hefur samþykkt starfsmannastefnu fyrir sjóðinn. Þar kemur fram að Stapi leggi áherslu á starfsánægju, gott starfsumhverfi, markvissa fræðslu og þjálfun. Stefnan tiltekur einnig að starfsmenn sjóðsins eru metnir að verðleikum, óháð kynferði, aldri, þjóðerni eða trú. Það er markmið sjóðsins að allir starfsmenn njóti sömu virðingar og hafi jöfn tækifæri til starfa, launa, umbunar, starfsþjálfunar og aðstöðu. Sjóðurinn hefur sett sérstaka stefnu og áætlun gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundnu áreiti, ofbeldi og annarri ótilhlýðlegri háttsemi.
Stapi leitast við að hafa starfsumhverfi, tæki og aðbúnað með bestum hætti á hverjum tíma og tryggja öryggi starfsfólks í vinnu. Sjóðurinn metur reglulega þörf á endurnýjun búnaðar og aðstöðu starfsfólks. Stefna Stapa er að stuðla að heilsusamlegu líferni starfsfólks, bæði andlegu og líkamlegu og styrkir starfsfólk til líkamsræktar með fjárframlagi.
Einn starfsmaður lét af störfum hjá rekstraraðila sjóðsins á árinu og nýr starfsmaður bættist í hópinn.
Stefna í umhverfismálum
Sjóðurinn hefur tekið í notkun miðlæga aðgangsstýrða prentlausn með það að markmiði að draga úr pappírsnotkun sjóðsins. Þá miðar sjóðurinn að því að koma raftækjum sem ekki eru lengur í notkun sjóðsins í endurnýtingu eða endurvinnslu. Lögð er áhersla á að lágmarka og flokka úrgang sem fellur til í starfsemi sjóðsins.
Það er stefna sjóðsins að skjalaumsýsla hans færist í auknum mæli í rafrænt form til að auka öryggi upplýsingaeigna og draga úr pappírsnotkun.
Sem fjárfestir ætlast sjóðurinn til að fyrirtæki sem sjóðurinn á eignarhlut í fari að lögum og reglum um umhverfismál og geri sér grein fyrir, stýri og eftir föngum dragi úr þeim áhrifum sem viðkomandi starfsemi hefur á umhverfi.
Stefna í mannréttindamálum
Stefna sjóðsins í mannréttindamálum er að allar manneskjur fái notið mannréttinda án tillits til kynferðis, kynhneigð, litarháttar, þjóðerni, trúarskoðunum, búsetu og efnahag. Stjórn og starfsmenn leggja áherslu á jafnræði við afgreiðslu mála og að mismuna ekki.
Sem fjárfestir ætlast sjóðurinn til þess að fyrirtæki sem sjóðurinn á eignahlut í grípi til ráðstafana til að tryggja að starfsemi þeirra eða viðskipti brjóti ekki í bága við alþjóðlega viðurkenndar reglur um mannréttindi og að þau stundi ekki viðskipti við aðila sem stunda mannréttindabrot. Þá ætlast sjóðurinn til að félög í eignasafni hans móti sér stefnu í mannréttindamálum, miðli henni og veiti leiðbeiningar til starfsmanna sinna, samstarfsaðila og birgja ef félagið er með starfsemi eða viðskipti í löndum þar sem mannréttindi eru ekki virt að mati viðurkenndra alþjóðastofnana.
Varnir gegn spillingar- og mútumálum
Í því skyni að stuðla að góðum stjórnarháttum og sporna við spillingar- og mútumálum í tengslum við starfsemi sjóðsins er m.a. byggt á eftirfarandi:
* Siðareglur
* Starfsreglur stjórnar
* Stefna og reglur um varnir gegn peningaþvætti auk áreiðanleika- og úrtakskananna
* Verklagsreglur um viðskipti stjórnarmanna og starfsmanna með fjármálagjörninga
Stjórn sjóðsins hefur skipað ábyrgðarmann varna gegn peningaþvætti og regluvörð sem ásamt áhættustjóra sinnir m.a. eftirliti með spillingaráhættu og hlítingu við framangreind skjöl.
Stapi hefur ekki skilgreint ófjárhagslega lykilmælikvarða en stefnir á árinu 2021 að kanna fýsileika þess að taka upp slíka mælikvarða.
Stjórn og framkvæmdastjóri Stapa lífeyrissjóðs staðfesta hér með ársreikning sjóðsins fyrir árið 2020 með undirritun sinni.
Akureyri, 30. mars 2021
Í stjórn
Erla Jónsdóttir
Jónína Hermannsdóttir
Kristín Halldórsdóttir
Oddný María Gunnarsdóttir
Sverrir Mar Albertsson
Tryggvi Jóhannsson
Unnar Már Pétursson
Valdimar Halldórsson
Framkvæmdastjóri
Jóhann Steinar Jóhannsson
Yfirlit um breytingu á hreinni eign til greiðslu lífeyris árið 2020
Efnahagsreikningur 31. desember 2020
Yfirlit um sjóðstreymi ársins 2020
Yfirlit um tryggingafræðilega stöðu 31.12.2020
Skýringar
Skoða skýringar með ársreikningi Stapa