Fara í efni

Eftir metávöxtun Stapa á árinu 2021, sem nam þá 12,8% raunávöxtun, var raunávöxtun nýliðins árs sú slakasta í rekstri sjóðsins í núverandi mynd eða sem nemur 12,6% neikvæðri raunávöxtun. Þessar miklu sveiflur í raunávöxtun endurspegla þær öfgar og áskoranir sem eignastýrendur glíma við þessi misserin. Mikill breytileiki ávöxtunar eins og borið hefur á síðustu ár fara illa saman við markmið langtímafjárfesta á borð við Stapa sem vilja byggja á fyrirsjáanleika og öryggi í ávöxtun eigna sinna.

Meðal þeirra ófyrirséðu atburða sem sjóðurinn þurfti að fást við á liðnu ári voru hugmyndir fjármálaráðherra um slit ÍL-sjóðs með afturvirkri lagasetningu sem myndi framkalla gjaldfellingu svokallaðra Íbúðabréfa. Í kjölfar kynningarfundar ráðherra um málið lækkaði virði Íbúðabréfa í eignasafni Stapa um 14% eða sem nemur 1,4% af heildareignum. Sjóðurinn hefur sjálfur og á sameiginlegum vettvangi lífeyrissjóða aflað lögfræðiálita sem staðfesta að fyrirhugaðar aðgerðir fjármálaráðherra andstæðar eignarréttarákvæði stjórnarskrár og mannréttindasáttmála Evrópu. Komi til þess að Alþingi samþykki afturvirk lög líkt og fjármálaráðherra hefur boðað gerir sjóðurinn ráð fyrir að sækja bætur fyrir tjón sem slík lagasetning kann að valda.

Þrátt fyrir slaka ávöxtun á nýliðnu ári duga eignir Stapa ágætlega fyrir áföllnum skuldbindingum hans. Þá staðreynd má rekja til einstaks réttindakerfis sjóðsins sem aðlagar óúrskurðaðar skuldbindingar að ávöxtun eigna hans mánaðarlega. Sveigjanleiki réttindakerfisins hefur sýnt sig bæði í gegnum þessar miklu sveiflur ávöxtunar og umfangsmiklar breytingar á lýðfræðilegum forsendum sem tóku gildi í árslok 2021.

Það er einmitt vegna þessara breytinga á lýðfræðilegum forsendum við tryggingafræðilega athugun sjóðsins sem nú eru lagðar fyrir ársfund sjóðsins tillögur um umfangsmestu breytingar á samþykktum sjóðsins frá því að nýtt réttindakerfi var tekið í notkun árið 2016. Tillögurnar snúa að því að aðlaga samþykktirnar að því að spár um meðalævilengd sjóðfélaga eru nú mismunandi eftir fæðingarárgöngum. Þannig er nú gert ráð fyrir því að yngri sjóðfélagar lifi lengur að meðaltali heldur en þeir eldri, í takti við þá þróun sem við höfum séð undanfarna áratugi. Lengri meðalævi þýðir að miðað við óbreyttan eftirlaunaaldur þarf réttindasjóður sjóðfélaga að duga í fleiri ólifaða mánuði eftir að taka eftirlauna hefst. Það þýðir óhjákvæmilega að hver mánaðargreiðsla verður lægri en miðað við fyrri forsendur. Áhrifin eru mismunandi eftir fæðingarárgöngum þar sem meðalævi lengist mismikið samkvæmt nýju spánni, en verði tillögurnar samþykktar lækka áætluð eftirlaun sjóðfélaga um 4-14%, mest hjá þeim yngstu. Mikilvægt er að halda því til haga að réttindasjóður sjóðfélaga verður ekki skertur – hann verður áfram sama krónutalan. Hins vegar þarf að dreifa sjóðnum á fleiri ólifaða mánuði. Tillögurnar hafa hins vegar ekki áhrif á lífeyri þeirra sem þegar hafa verið úrskurðaðir á lífeyri.

Iðgjöld sjóðfélaga jukust mikið á árinu 2022 eða sem nemur tæpum 15%. Greina má kröftugan viðsnúning í öllum atvinnugreinum frá fyrra ári nema opinberri þjónustu þar sem iðgjöld Atvinnuleysistryggingasjóðs drógust verulega saman milli ára þegar sértæk úrræði vegna Covid-lokana runnu sitt skeið. Þróttmesta vöxtinn var hins vegar að finna í verslun og þjónustu þar sem iðgjöld jukust um tæplega 30%, en atvinnugreinin er jafnframt sú stærsta í iðgjaldagreiðslum til sjóðsins með tæplega þriðjungs hlutdeild. Það mátti einnig greina ánægjulega þróun í vanskilum iðgjalda á árinu en í lok árs námu þau innan við 1% af iðgjöldum ársins, sem er sögulegt lágmark.

Mikil umræða hefur átt sér stað undanfarna mánuði um hlutverk lífeyrissjóða sem fjárfesta í innlendum hlutafélögum. Stjórn Stapa hefur mótað hluthafastefnu og stefnu um ábyrgar fjárfestingar til leiðsagnar fyrir starfsmenn sjóðsins sem hafa það hlutverk að vinna eftir stefnum sjóðsins. Eftir að hafa haldið sig til hlés árum saman hefur sjóðurinn nú tekið upp virkari framkvæmd hluthafastefnu og beitir sér fyrir bættum stjórnarháttum skráðra innlendra hlutafélaga. Það gerir sjóðurinn með samskiptum við stjórn og stjórnendur félaga og beitingu atkvæðaréttar á hluthafafundum. Árangur af framkvæmd hluthafastefnu sjóðsins er ekki alltaf auðgreinanlegur þar sem sjóðurinn vinnur m.a. í aðdraganda ársfunda að því að hafa áhrif á tillögur stjórna til ársfunda í samræmi við inntak og markmið hluthafastefnu sjóðsins. Ef tillögur stjórna til ársfunda samræmast ekki stefnum sjóðsins mun sjóðurinn greiða atkvæði gegn þeim eða leggja fram breytingartillögur. Árangursrík framkvæmd hluthafastefnu þarf því ekki endilega að fela í sér metfjölda hafnana á tillögum stjórna til ársfunda. Það telst ekki sjálfkrafa dyggð að hafna tillögum stjórna félaga til ársfunda, enda er það ekki sjálfstætt markmið okkar. Við viljum hins vegar sjá góða stjórnarhætti og við beitum þeim verkfærum sem við höfum til að knýja á um það. Undanfarin ár hefur sjóðurinn gert grein fyrir beitingu atkvæðaréttar sjóðsins á hluthafafundum skráðra innlendra hlutafélaga á heimasíðu sjóðsins. Á nýliðnum aðalfundum skráðra innlendra félaga beitti sjóðurinn sér með fjölbreyttum hætti með athugasemdum og ábendingum til stjórna, mótatkvæðum við tillögum stjórna eða með því að greiða atkvæði með breytingartillögum við tillögur stjórna til aðalfunda.

Auk þess að beita sér fyrir góðum stjórnarháttum leggur sjóðurinn sérstaka áherslu á grænar fjárfestingar. Í því augnamiði gerðist Stapi aðili að fjölþjóðlegu samstarfi á sviði fjárfestinga í þágu loftslagsmála, svonefnt Climate Investment Coalition. Með því að taka þátt í samstarfinu lýsir Stapi vilja sínum til að auka grænar fjárfestingar sínar og styðja þannig við markmið um að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda á heimsvísu. Markmið Stapa er að þessar grænu fjárfestingar verði allt að því 30 ma. kr. eða sem nemur 7% af eignasafni sjóðsins árið 2030. Framvindan á nýliðnu ári var hins vegar hægari en áætlanir sjóðsins gerðu ráð fyrir en í lok árs nam hlutfall grænna eigna 3% þegar áætlun okkar gerði ráð fyrir tæplega 4% hlutfalli.

Undanfarin ár hefur Stapi stigið varfærin en markviss skref í átt að sjálfbærum og ábyrgum fjárfestingum. Áhersla hefur verið lögð á að setja raunhæf markmið, spara digurbarkalegar yfirlýsingar en standa sannarlega við það sem við setjum fram í stefnum okkar. Nýrrar stjórnar bíður það verkefni að taka áframhaldandi skref í þá átt að færa Stapa í fremstu röð meðal íslenskra lífeyrissjóða á sviði ábyrgra fjárfestinga.

Með breytingum á lögum sem tóku gildi um áramótin var lagastoð skotið undir hina svokölluðu tilgreindu séreign sem upphaflega varð til í almennum kjarasamningum árið 2016. Lagasetningin festir í sessi frelsi sjóðfélaga til að ráðstafa hluta skylduiðgjalds í séreign. Alls nýttu 1.290 sjóðfélagar þessa heimild á árinu eða sem nemur 6% sjóðfélaga tryggingadeildar. Hluti af framangreindu frelsi felst í að sjóðfélagar hafa heimild til að vísa hluta skylduiðgjaldsins til þar til bærs aðila að eigin vali. Þannig sendu 822 sjóðfélagar af 1.290 tilgreinda séreign til annars sjóðs en Stapa, samtals um 40% iðgjalda tilgreindrar séreignardeildar. Við gerum ráð fyrir því að staðan sé svipuð í séreignardeild þó en vegna ólíks fyrirkomulags getum við ekki slegið því föstu. Aukið valfrelsi sjóðfélaga Stapa er út af fyrir sig ekki áhyggjuefni, því ber raunar að fagna enda er sjóðurinn vel samkeppnishæfur í sínum rekstri. Hins vegar hvetjum við sjóðfélaga alltaf til þess að huga vel að kostnaði hjá móttökusjóðum tilgreindrar séreignar og að þeir njóti sömu réttinda til uppsagnar, flutnings inneignar og skattfrjálsar ráðstöfunar inn á lán áður en ákvörðun um flutning tilgreindar séreignar er tekin.

Miðað við hve stór hluti iðgjalda í tilgreinda séreign er fluttur til annarra sjóða liggur beinast við að sjóðurinn skoði hvort þjónustuframboð sjóðsins fullnægi þörfum sjóðfélaga. Augljós munur á okkar þjónustuframboði og til dæmis erlendra vörsluaðila séreignarsparnaðar er að þeir aðilar bjóða upp á séreignarsparnað í erlendri mynd, sem sjóðfélagar kunna að telja eftirsóknarvert. Til að mæta þeirri eftirspurn mun Stapi síðar á árinu bjóða upp á séreignarleið sem mun að öllu leyti fjárfesta í erlendri mynt. Með þessari ráðstöfun vonumst við til að svara betur óskum sjóðfélaga okkar um fjölbreyttar ávöxtunarleiðir í séreign.

Fleiri lagabreytingar sem varða rekstur sjóðsins litu dagsins ljós á árinu, meðal annars hækkun heimilda til fjárfestinga í erlendri mynt og heimild til rafrænna birtinga sjóðfélagayfirlita. Fyrrnefnda lagabreytingin hefur ekki mikil áhrif á framkvæmd fjárfestingarstefnu sjóðsins til skemmri tíma enda hlutfall erlendra eigna sjóðsins enn nokkuð undir því hámarki sem lögin kváðu áður um. Síðarnefnda breytingin hefur í för með sér að sjóðurinn mun frá og með haustinu aðeins gefa sjóðfélagayfirlit út rafrænt á sjóðfélagavef, nema ef sjóðfélagar óski þess sérstaklega að fá pappírsyfirlit. Þessu fylgir auðvitað talsvert hagræði fyrir sjóðinn, enda sendir sjóðurinn út tæplega 20 þúsund sjóðfélagayfirlit tvisvar á ári með tilheyrandi kostnaði og pappírssóun.

Nú í upphafi árs 2023 var skipað í nefnd um svokallaða grænbók um lífeyrismál þar sem lífeyrissjóðir munu eiga fulltrúa. Grænbók er umræðuskjal í opnu samráði og hluti af stefnumótunarferli stjórnvalda. Að því loknu verður væntanlega til hvítbók sem telst vera drög að opinberri stefnu eða tillögur. Málið á rætur að rekja til yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar 29. september 2020 í tilefni af viðræðum um forsendur svonefnds lífskjarasamnings. Frá þeim tíma hefur skipun nefndar tafist en nú virðist loks vera kominn gangur í málið en stefnt er að því að grænbókin liggi fyrir áður en árið er úti. Ég hef væntingar til þess að niðurstaðan marki fyrstu skrefin í mótum skýrrar framtíðarsýnar fyrir íslenska lífeyriskerfið og samspil þess við almannatryggingar. Eins og niðurstöður alþjóðlegs samanburðar hafa ítrekað staðfest er íslenska lífeyriskerfið á heimsmælikvarða. Við getum hins vegar alltaf gert betur eins og tillögur úttektaraðila bera með sér og að því ættum við ætíð að stefna.

Á starfsárinu fundaði stjórn Stapa 15 sinnum, þar af í tvígang á sérstökum vinnufundum vegna mótunar fjárfestingarstefnu og stefnumótun sjóðsins í heild. Samstarf í stjórn hefur gengið vel. Stjórnarmenn koma með fjölbreytta þekkingu og mismunandi bakgrunn að borðinu og sinna störfum sínum af heilindum og metnaði. Vil ég þakka þeim sérstaklega fyrir árangursríkt samstarf á árinu.

Að lokum vil ég fyrir hönd stjórnar þakka sjóðfélögum og öðrum hagaðilum samstarfið á árinu sem og starfsfólki Stapa fyrir ánægjulegt og árangursríkt samstarf.

Erla Jónsdóttir, stjórnarformaður