Tryggingadeild
Lykiltölur 2022
Iðgjöld
Alls greiddu 22.185 sjóðfélagar iðgjöld til tryggingadeildar á árinu 2022. Fjöldi virkra sjóðfélaga sem greiddu iðgjöld í hverjum mánuði voru 15.686. Iðgjöld ársins án tillits til framlags ríkisins til jöfnunar á örorkubyrði, námu 15.825 m.kr. og hækkuðu um 14,6 % frá fyrra ári.
Meðalaldur greiðenda og aldursamsetning var svipuð og fyrri ár. Stærsti aldurshópurinn var fólk á bilinu 21-30 ára. Karlar eru 54% greiðenda og konur 46%.
Hlutur verslunar og þjónustu í iðgjöldum sjóðsins eykst hlutfallslega mest milli ára. Hlutfall opinberrar þjónustu vex minnst en það skýrist af lægri iðgjöldum frá Atvinnuleysistryggingasjóði.
2022 | 2021 | Breyting % | |
Iðgjöld í m.kr. | 15.825 | 13.808 | 14,6% |
Meðalfjöldi greiðandi sjóðfélaga | 15.686 | 14.970 | 4,8% |
Heildarfjöldi greiðandi sjóðfélaga | 22.185 | 20.834 | 6,5% |
Fjöldi launagreiðenda | 3.718 | 3.526 | 5,4% |
Lífeyrisgreiðslur
Lífeyrisgreiðslur tryggingadeildar námu alls 9.088 m.kr. og hækkuðu um 14,8% frá fyrra ári. Á árinu fékk sjóðurinn greiddar 593 m.kr. frá ríkinu vegna jöfnunar á örorkubyrði milli lífeyrissjóða og hækkaði framlagið um 12,7% frá fyrra ári. Framlagið jafngildir um 29% af greiddum örorkulífeyri frá sjóðnum. Lífeyrisbyrði sjóðsins sem hlutfall af iðgjöldum, var 56,1% samanborið við 55,9% á árinu 2021.
Á árinu hófu 776 sjóðfélagar töku mánaðarlegra eftirlauna, 307 einstaklingar fengu úrskurðaðan örorkulífeyri, 123 mánaðarlegan makalífeyri og 96 barnalífeyri.
Þá fengu 766 einstaklingar eingreiðslu lífeyris þar sem um lítil réttindi var að ræða, þeim fjölgaði umtalsvert frá fyrra ári því þau mörk sem miðað er við hvað eingreiðslu varðar voru hækkuð talsvert á fyrrihluta ársins. Meðalfjöldi lífeyrisþega í hverjum mánuði var 12.003 og fjölgaði um 415 frá fyrra ári eða um 3,6%.
Algengast er að sjóðfélagar hefji töku eftirlauna við 67 ára aldur en stór hluti byrjar þó einnig við 65 ára aldur, sbr. mynd. Áhugavert er að skoða eftirlaunatöku eftir árgöngum. Um 17% af þeim sem urðu 64 ára árinu 2022 hafa þegar hafið töku eftirlauna, í lok árs 2022 og 71% þeirra sem urðu 67 ára á árinu 2022 hafa þegar hafið töku eftirlauna, í lok árs 2022.
Fjárfestingartekjur og ávöxtun
Hreinar fjárfestingartekjur tryggingadeildar voru neikvæðar um 14.223 m.kr. á árinu samanborið við jákvæðar tekjur að fjárhæð 54.466 m.kr. árið 2021.
Ávöxtun ársins var afar óhagfelld. Flest allir eignaflokkar lækkuðu sem má rekja til aukinnar verðbólgu og hækkunar vaxta á öllum helstu mörkuðum. Nafnávöxtun var neikvæð sem nam 4,2% samanborið við 18,5% nafnávöxtun á fyrra ári. Raunávöxtun var neikvæð sem nam 12,6% samanborið við 12,8% árið 2021.
Ef horft er til lengra tímabils en eins árs, líkt og eðlilegt er í tilviki lífeyrissjóðs, nemur fimm ára raunávöxtun 3,7% og ávöxtun síðastliðinna tíu ára 3,9%, sem er yfir 3,5% ávöxtunarviðmiði. Búast má við sveiflum á ávöxtun einstakra tímabila. Sé horft til 20 ára er raunávöxtun 3,8% sem er einnig yfir fyrrgreindu viðmiði.
Rekstrarkostnaður
Stöðugildi hjá sjóðnum voru 20,3 á árinu samanborið við 20 á árinu 2021. Rekstrarkostnaður sjóðsins nam 548 m.kr. og hækkaði um 8,5% á milli ára en hann var 505 m.kr á árinu 2021.
Kostnaðarhlutfall sjóðsins er 0,14% árið 2022 og helst því ´´obreytt fra´ fyrra ári.
2022 (þ.kr.) | 2021 (þ.kr.) | |
Laun og launatengd gjöld | 336.925 | 314.037 |
Tryggingastærðfræðingur | 3.582 | 4.190 |
Endurskoðun | 5.625 | 5.789 |
Innri endurskoðun | 5.455 | 6.037 |
Lögfræðikostnaður | 13.623 | 6.446 |
Fjármálaeftirlit | 17.705 | 17.893 |
Tölvukostnaður | 93.412 | 87.408 |
Annar kostnaður | 71.203 | 62.770 |
Samtals | 547.530 | 504.570 |